Farhættir skrofu

27. maí 2014 kl.07:11

Í gær var farið í fyrstu ferðina út í Ystaklett til að ná í skrofur með dægurrita. Náttúrustofan hefur sett dægurrita á skrofur, á hverju ári frá 2006, í samstarfi við Barselónaháskóla og Náttúrustofu Norðausturlands. Dægurritarnir eru settir á fugla í varpholum, ári síðar er fuglunum svo náð aftur á sama stað og ritarnir teknir af og aðrir settir í staðinn.
 
 
Skrofa með dægurrita. Þetta er kvenfugl sem ekki náðist aftur í fyrra og því geymir dægurritinn væntanlega upplýsingar um farleið hennar og staðsetningu síðustu tvo vetur.
 
 

Dægurritarnir eru með ljósmæli og klukku og skrá því lengd dagsins. Út frá þessum upplýsingum má reikna staðsetningu hvers fugls með nákvæmni upp á nokkra tugi kílómetra. Settir voru dægurritar á átta skrofur í fyrra og náðust tvær þeirra aftur núna. Einnig náðist einn dægurriti sem settur var á skrofu árið 2012 en ekki tókst að ná aftur í fyrra. Reynt verður að ná þeim fuglum sem eftir eru á næstu vikum.