Stofnvöktun fýlingja í Vestmannaeyjum

Í Vestmannaeyjum verpa allar fjórar tegundir fýlingja (Procellariformes) sem verpa hérlendis. Fýll flokkast sem alþjóðleg ábyrgðartegund þar sem stór hluti heimsstofns fýls verpur hérlendis. Allur skrofu, og svo til allur varpstofn sjósvölu og stormsvölu  hérlendis verpa í Vestmannaeyjum. Sæsvölurnar eru báðar á alþjóðlegum válista IUCN, skrofa er á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands og fýll á Evrópuválista IUCN. Útbreiðsla þessara tegunda er þekkt, en stofnstærð síður þekkt að fýl undanskyldum. Lýðfræðileg þekking (líftölur og viðkoma) á öllum tegundunum hérlendis er næstum engin. Full ástæða er til að vakta þessar tegundir sérstaklega, og einnig vinna úr tiltækum upplýsingum. Frekar er fjallað um stöðu tegundanna hér að neðan.

Sjósvala (Oceanodroma leucorhoa)

Stofnstærð sjósvölu er ekki vel þekkt hérlendis og byggir á útbreiðslu- og þéttleikamælingum sem gerðar voru í Elliðaey 1991 þegar þéttleiki var mældur með endurspilunaraðferð í tveimur reitasniðum og útbreiðsla kortlögð í 162 reitum [10]. Stofnmat fyrir Vestmannaeyjar var byggt á framreikningi niðurstaða úr Elliðaey og nánum tengslum útbreiðslu sjósvölu við lundabyggðir sem eru vel þekktar í Eyjum [11].

Heimsstofn sjósvölu er áætlaður 6,7-8,3 milljónir varppara, 40-48% verpa í Atlantshafi, og 90% af þeim við Nýfundnaland. Erfðarannsóknir benda til einangrunar milli stofnana í Atlantshafi og Kyrrahafi. >30% fækkun við Nýfundnaland síðustu áratugi leiddi til þess að árið 2016 var sjósvala var sett á válista IUCN. 54% fækkun hefur orðið á St. Kilda við Skotland síðan 1999, en þar verpur>94% Breska stofnsins. Í þessu samhengi voru þéttleikamælingarnar frá 1991 endurteknar árið 2017 og bentu niðurstöður til 74% minnkunar á þéttleika! Af þessum sökum var gerður út sérstakur leiðangur árið 2018 til frekari athugana í samstarfi við Konunglega Fuglaverndarfélagið (RSPB) og Cardiff háskóla. Sumarlangt leiðindaveður kom í veg fyrir fjölmargar fyrirhugaðar athuganir og stytti jafnframt leiðangurinn. Hér eru teknar saman helstu niðurstöður leiðangursins.

  1. 74% lækkun á þéttleika miðað við 1991 var staðfest með notkun sömu aðferðafræði árið 1991.
  2. Með spilun á >1300 jafndreifðum GPS punktum var bæði varpútbreiðsla og þéttleiki kortlögð nákvæmlega og í ljós kom að meginvörpin eru tvo, á tveim efstu tindum Elliðaeyjar, Bunka og Hábarði, en mun minna annarsstaðar. Frumniðurstaða er 4.563 varpsetur (95% öryggismörk: 3992 – 5133). Þar sem sniðin árið 1991 lágu eftir landslagsprófíl um bæði meginvörpin var þéttleiki þá talsvert ofmetin (u.þ.b. þrefalt), og stofnmatið einnig sem því nemur. Ef meðalþéttleiki er svipaður í öðrum úteyjum eins og er í Elliðaey þá má þannig gróflega áætla að heildarstofnstærð hafi verið 60.000 setur árið 1991 en ekki 200.000! Þessi fjöldi hefur svo minnkað um 74% eða í um 16.000 setur! Nauðsynlegt er að skoða a.m.k. Bjarnarey og Álsey til viðbótar og jafnvel Suðurey og Brand ef munur er á þéttleika milli eyja.
  3. Aðferðafræði við þessar mælingar var endurskoðuð og „Occupancy Estimation Modelling“ aðferðafræði var beitt við úrvinnslu, og er þetta stofnmat hluti doktorsritgerðar Zoe Deakin við Cardiff háskóla. Endurspilað var á sömu reitunum til að fá hlutfall falskra neikvæðra svarana (fuglar sem svara ekki þótt þeir séu til staðar). Athugað var hve langt frá spilunarstað athugandi greinir svarhljóð. Spilanaröð kallhljóða kynjanna skiptir miklu máli um svörunartíðni. Ef karl er spilaður fyrst, þegja kerlingar tölfræðilega marktækt mun frekar en ef kerling er spiluð fyrst.
  4. Safnað var 120 máfaælum í lok álegu, 30-40% innihéldu svöluleifar og ljóst að sílamáfar í Elliðaey a.m.k. éta sæsvölur í talsverðu magni, líklega eingöngu varpfugla. Nú verpa um 120 sílamáfspör í Elliðaey. Handrit sem fjallar um þessar niðurstöður hefur verið sent til tímaritsins Seabird: Hey, Hansen & Bolton. Æskilegt er að stinga á egg til að fækka máfunum.
  5. DNA meta barcoding. Sýni úr bæði ælum og skít var safnað úr báðum sæsvölutegundunum til fæðugreininga með DNA aðferðum. Ekkert hefur verið ritað um fæðu þessara tegunda hérlendis.

Kortlagning vetrarstöðva sjósvölu

Settir voru dægurritar (GLS) á 11 sjósvölur í síðla á álegutímanum í lok júní 2019. Ritarnir voru sendir frá Environment Canada í samvinnu við April Hedd sem samanburður við þeirra rannsóknir. Ritar verða settir á fugla aftur 2020 og tekin lífsýni til kvikasilfurmælinga og ísótópagreininga. Varpárangur er almennt hár í Kanada, en líftala varpfugla hefur lækkað þar mikið, sem beinir sjónum að hugsanlegri aukningu dánartíðni að vetri. Í þessu samhengi er áhugavert að vita hvort þessir stofnar hafa sameiginlegar eða aðskildar vetrarstöðvar.

Stormsvala (Hydrobates pelagicus)

Stormsvölur verpa í grjóturðum, kletta og hraunglufum í þremur úteyjum Vestmannaeyja, í Elliðaey er stærsta varpið, en einnig Bjarnarey og Brandi. Einnig verpa einhverjir tugir para í Papey og einhver pör í Skrúð. Stormsvölur hafa fremur lágt hlutfall svarana við spilun kallhljóða sem gerir mælingar á þéttleika torveldan. Upptökur úr hitamyndavélum hafa gefið góða raun í Skotlandi [17]. Fyrirhugað er að bera saman slíkar upptökur, svaranir við kallhljóðum og endurheimtur í Skápum í Elliðaey sem er vel afmarkað og sögufrægt varp, en þar eru um 80% varpfugla merktir og hafa svölumerkingar verið stundaðar þar í ártugi, lengst á Íslandi. Unnið er að úrvinnslu líftölu úr þeim merkingagögnum. Þesskonar samanburður er grunnur frekari rannsókna á stormsvölunni. Bundnar eru vonir við að hitamyndavél ásamt endurspilun gefi nauðsynlegt stofnmat innan fárra ára. Líkleg varpsvæði voru mæld upp árið 1986 í Elliðaey. Fyrri ágiskanir sem spanna frá 20.000 til 100.000 pör eru ekki byggðar á neinum mælingum né samanburði við önnur vörp af þekktri stærð. Mark Bolton sem hefur unnið í áratugi í eynni Mousa í Skotlandi sem telur 20.000 pör eða setur, segir fjöldann talsvert minni í Elliðaey eftir að hafa dvalið þar í rúma viku við athuganir að næturlagi (persónulegar upplýsingar). Erfitt er að sjá stormsvöluhreiðrin með holumyndavélum þar sem djúpt er á þau og mjög þröngur aðgangur. Gerð var tilraun árið 2017 að bjóða þeim upp á hreiðurkassa til að stórbæta aðgengi vísindamanna eins og gert hefur verið erlendis. Þessi tilraun var ekki vinsæl meðal svalanna, a.m.k. fyrstu tvö árin á eftir. Líklega hjálpaði ekki til að sílamáfar hafa þarna byggt sér um 120 hreiður á síðasta áratug eða svo. Æskilegt er minnka máfavarpið með því að stinga á máfaegg í maí.

Skrofa (Puffinus puffinus)

Gerð var stofnúttekt á skrofu með endurspilun yfir 6537 m2 árið 1991 í Ystakletti, en þar er langstærsta varpið. Varpið þar var metið 5660 pör auk nokkurra hundraða para í stærstu úteyjunum, Álsey, Bjarnarey, Elliðaey og Suðurey. Nauðsynlegt er að endurtaka þessa úttekt. Varpárangur skrofa með hnattrita í Ystakletti var 0,733 ungar/egg árið 2012 (95% ö.m: 0,449-0,922, n=15) og 0,826 í Elliðaey árið 2011 (95% ö.m: 0,612-0,950, n=23). Þessi varpárangursgildi eru há. Vetrarstöðvar og ferðir skrofa í Ystakletti hafa verið rannsakaðar árlega með dægurritum frá árinu 2006. Vetrarstöðvar Íslenskra skrofa eru þær sömu og frá Bretlandseyjum eða úti fyrir ströndum Argentínu. Þessi gögn leyfa einnig útreikning á líftölu sem til stendur að reikna (Ingvar A. Sigurðsson munnlegar upplýsingar). Góðar heimtur hafa verið á dægurritum sem er vísbending um háar lífslíkur. Lítið er vitað um fæðu skrofu hérlendis en þær éta m.a. síli (Arnþór Garðarsson munnl. Upplýsingar).

Fýll (Fulmarus glacialis)

Fýl í Eyjum hefur fækkað um 41%, úr 65.000 í 38.000 setur milli 1983-4 og 2006-8 eða um 1,6% árlega. Varpútbreiðsla og stofnstærð þeirra er nú þekkt. Frumniðurstöður mælinga á varpárangri með hikmyndavélum sýna lága viðkomu og líftala hérlendis er óþekkt. Fýlavörp í Heimakletti SA-verðum hafa verið ljósmynduð mánaðarlega um árabil m.a. til að reyna meta varpárangur, en aðferðafræði er í þróun.