Lundi er algengastur og einna mest veiddur íslenskra fugla. Næstum allur lundi er nú veiddur í háf á varptíma og varð háfaveiði ríkjandi veiðiaðferð í Vestmannaeyjum um 1880. Þar hefur veiðimagn verið tengt sjávarhita frá 1880 [2]. Skiptast á hlý- og köld tímabil sem vara í um 35 ár (svonefnd AMO sveifla), og hefur veiði hnignað á hlýskeiðunum en aukist á kaldskeiðum. Núverandi hlýskeið hófst 1996 og hefur lundaveiði á landsvísu dregist saman um 90% 1995-2018, en samdrátturinn 1995-2007 nemur 73 prósentustigum, þ.e. áður en dregið var úr sókn. Líklegt er að lækkuð viðkoma á landsvísu skýri að mestu þennan samdrátt í veiðum, sem aftur endurspeglar neikvæð áhrif hitabreytinga og hugsanlega fleiri umhverfisþátta á aðalfæðutegundir lunda hérlendis, sandsíli og loðnu. Árlegur stofnvöxtur (λ) Íslenska lundastofnsins á landsvísu árabilið 2010-2019 var að meðaltali 0,96478 sem er undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum (λ = 1). Reiknuð fækkun með þessu meðaltali árabilið 2003-2019, eða frá því að sjávarhiti náði hámarki er -43,7% eða 2,73% á ári. Líftala varpfugla í Vestmannaeyjum 2008-2019 hefur mælst eðlileg (0,92), en þar hefur viðkoma jafnframt verið lægst. Lítil viðkoma hefur því valdið mikilli fækkun í stofninum síðustu 17 ár. Mikill munur hefur verið í viðkomu, varpárangri og ábúð milli fjögurra landsvæða. Viðkoma hefur verið hæst og fremur stöðug á Norðursvæði og sandsíli algeng fæða í stað loðnu áður. Stofnvöxtur hefur verið >1, en veiðar tekið um 60% af ungaframleiðslu umfram sjálfsviðhald. Á Austursvæði náði stofnvöxtur sér á strik eftir núll-árin 2010 og 2011 en hefur verið rétt undir sjálfbærnimörkum og fæða einkennst af lirfum loðnu og sílis. Á Vestursvæði (Faxaflóa og Breiðafirði) hafa orðið mestar breytingar, með mikilli aukningu í viðkomu, varpárangurs og ábúðar uppúr 2015. Sandsíli hefur talsvert sést þar í fæðuburði síðustu þrjú ár, mest í Faxaflóa. Stofnvöxtur hefur verið lægstur í Vestmannaeyjum, en viðkoma í Eyjum hefur verið lítil allt frá árinu 2003. Svo virðist sem sílið nái ekki enn sem komið er að fjölga nægjanlega til að ná fyrri stöðu sinni við Suðurland á síðasta kaldsjávarskeiði, en síðustu þrjú ár hefur viðkoma aukist verulega í Eyjum og stofnvöxtur að sama skapi. Stofnvöxtur hefur aukist á landsvísu síðasta áratug og nálgast sjálfbærniviðmiðið.