SEATRACK verkefnið – Vetrarstöðvar lunda

Náttúrustofa Suðurlands hefur verið þátttakandi í alþjóðlega verkefninu SEATRACK um kortlagningu vetrarstöðva sjófugla síðan 2014. Niðurstöður má skoða í kortavefsjá fyrir 11 tegundir sjófugla: http://www.seapop.no/en/seatrack/

Starfsfólk Náttúrstofu Suðurlands hefur sett dægurrita á lunda síðan 2013 í fimm byggðum Grímsey, Papey, Heimaey, og Hafnarhólma í Borgarfirði Eystra, Elliðaey Vestmannaeyjum var bætt við 2019, samtals 380 tæki. Frá 2014 hefur þetta verkefni verið innan vébanda alþjóðlegs samstarfs í SEATRACK verkefninu sem Norðmenn fjármagna og stjórna. 20 ritar hafa verið settir á árlega í Papey og Grímsey. Árið 2019 var Elliðaey í Vestmannaeyjum bætt við kerfið með ásetningu 25 rita. Dægurritar skrá daglega tíma og daglengd og þarf að ná fuglunum aftur til að hlaða niður gögnunum. Með þessum upplýsingum er hægt að staðsetja fuglana daglega með um 180 km nákvæmni utan jafndægra. Samtals hafa 121 dægurritar verið endurheimtir og þar af 26 ritar 2019, margir frá 2017. Verkefnið mun standa til 2023, og hefur landfræðilegt umfang verið stækkað í vestur með þátttöku Kanada, Grænlands og Írlands og inniheldur nú allt norðanvert N-Atlantshaf.

ARCTOX verkefnið

Safnað hefur verið lífsýnum úr endurheimtum lundum með dægurrita til greininga á kvikasilfri og lífrænum eiturefnum o.fl. í þessu samstarfsverkefni sem tengist SEATRACK verkefninu, undir stjórn Jerome Fort. Niðurstöður eru kynntar í nokkrum erindum á https://www.arcticbiodiversity.is/index.php/program/presentations2018/586-rctox-a-pan-arctic-sampling-network-to-track-the-mercury-contamination-of-arctic-seabirds-and-marine-food-webs-jerome-fort

Langtímabreytingar á viðkomu lunda og umhverfi

Þverfaglegur alþjóðlegur hópur sérfræðinga vinnur að rannsókn á sambandi lundaveiði í Vestmannaeyjum við sjávaryfirborðshita og aðrar umhverfisbreytur árabilið 1880-2008. Erpur S. Hansen er verkefnisstjóri.

Erfðarannsóknir á stofngerð og fæðu lunda

Undirritaður var samstarfssamningur 5. maí 2018 við Szczecin háskóla í Póllandi um erfðarannsóknir á stofngerð lunda við Ísland, og á fæðu með „DNA meta-barcoding“ á saur. Safnað var 20 saursýnum í öllum 12 rannsóknabyggðunum árin 2018 og 2019 en hugmyndin er að greina í þeim fæðu til tegunda með svokallaðri DNA meta-barcoding aðferð.

Raðgreining erfðamengis lunda

Hafið var alþjóðlegt samstarf árið 2018 um heildarraðgreiningu erfðamengis lunda frá nokkrum byggðum í Atlantshafi undir stjórn Sanne Boessenkool við Óslóarháskóla í Noregi. 40 Íslenskir fuglar verða samtals raðgreindir, frá Eyjum, Breiðafirði, Grímsey og Papey.

Örveruflóra lunda

Safnað var 20 saursýnum 2018 og 2019 í öllum rannsóknabyggðum sem framlag í alþjóðlegu rannsóknaverkefni um örveruþarmaflóru (e: microbiome) lunda undir stjórn Gary King við fylkisháskólann í Louisiana, Baton Rouge BNA. Úrvinnsla stendur yfir og verða frumniðurstöður kynntar á 3. Alþjóða sjófuglaráðstefnuni í Hobart, Tasmaniu í október 2021.

Fæðuvistfræði lunda við Ísland, Noreg og Wales

Tekið var þátt í samanburðarrannsókn á fæðuvistfræði lundaforeldra með GPS kortlagningu og DNA fæðugreiningum (meta-barcoding) á fæðu bæði foreldra og unga í fjórum byggðum: Skomer í Wales, Hernyken í Lofoten í Noregi, í Grímsey og Heimaey í júlí árið 2018, en ungaframleiðsla í þessum fjórum byggðum spannar allan skalann. Rannsóknin var gerð í samstarfi við og undir stjórn Annette Fayet við Oxford háskóla auk Tycho Anker-Nilsen og Gemma Clucas. Lundi fer fáar lengri ferðir í fæðuöflun fyrir sjálfan sig en margar styttri fyrir ungan. Varpárangur er í öfugu hlutfalli við vegalengd þessara ferða. Ekki tókst að magna upp erfðaefni úr hryggleysingjum og hlutdeild þeirra því enn óþekkt, en grunur leikur á að ljósáta við landgrunnsbrúnina í Vestmannaeyjum sé stór hluti fæðu fullorðinna fugla. Að þessu frátöldu var fæða unga og foreldra svipuð. Hafa frumniðurstöður verið kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu og innanlends og verða útgefnar í ritrýndri grein 2020. Fjallað var um þessar rannsóknir í New York Times 29. Ágúst 2018 í grein eftir John Schwarts og með ljósmyndum frá Josh Haner: https://www.nytimes.com/interactive/2018/08/29/climate/puffins-dwindling-iceland.html

Einnig kom út grein árið 2019 um verkfæranotkun lunda sem er aukaafurð þessara rannsókna: https://www.pnas.org/content/pnas/early/2019/12/24/1918060117.full.pdfHefur hún vakið mikla athygli í yfir 60 fjölmiðlum um heim allan, sérstaklega meðfylgjandi myndband: https://www.pnas.org/highwire/filestream/904445/field_highwire_adjunct_files/0/pnas.1918060117.sm01.mp4

Litamynstur langvíueggja

Samstarf við Mark Hauber og félaga á rannsóknum á litamynstri langvíueggja, en litamynstur eggja langvíukerlinga er mjög áþekkt milli ára og líklegt að kvenfuglinn a.m.k. þekki sitt eigið egg frá öðrum. Tvær greinar komu út 2018-2019.

Meðafli í grásleppunetum

Tekið var þátt í alþjóðlegri samantekt á meðafla í grásleppunetum sem var gefin út í ritrýndu vísindatímariti 2019.