Fréttir 2013

Merkingar sjó- og stormsvala 2013

Náttúrustofa Suðurlands stóð fyrir merkingaleiðangri út í Elliðaey helgina 16-18. ágúst. Alls tók 21 þátt í leiðangrinum í ágætisveðri. Farið var út síðdegis á föstudegi og merkt bæði aðfararanótt laugardags og sunnudags. Gist var í veiðihúsinu.

 

Leiðangursmenn á bryggjunni á Heimaey eftir vel heppnaða ferð út í Elliðaey (Ljósm. Kristján Kristinsson).

Alls voru merktir 1213 fuglar, 606 sjósvölur og 607 stormsvölur. Að auki veiddust 120 merktir fuglar, 39 sjósvölur og 81 stormsvala. Ekki eru komnar endanlegar upplýsingar um alla merktu fuglana en hér koma upplýsingar um nokkra fugla. Tólf sjósvölur voru merktar í Elliðaey, tvær 1998, ein 2005, sex 2006 og þrjár 2007. Ein stormsvala var merkt í Stórhöfða 2007 en 22 í Elliðaey. Tvær 2005, þrettán 2006 og sjö 2007.

Náttúrustofa Suðurlands þakkar leiðangursmönnum kærlega fyrir aðstoðina og fá Marínó Sigursteinsson og veiðifélagið í Elliðaey sérstakar þakkir fyrir alla hjálpina og fyrir afnot af veiðihúsinu.

Auk merkinganna í Elliðaey hafa um 100 sjó- og stormsvölur verið merktar í Stórhöfða í sumar. Frekari upplýsingar um endurheimtur og endanlegar veiðitölur verða væntanlega settar inn síðar.

 

Stálmerki komið fyrir á fæti stormsvölu (Ljósm. Ingvar A. Sigurðsson).