Fréttir 2015

Fuglamerkingar í Vestmannaeyjabæ

Starfsmenn Náttúrustofunnar hafa merkt nokkuð af spörfuglum í Vestmannaeyjabæ undanfarna vetur. Í vetur hafa veiðst nokkrir merktir fuglar sem ýmist voru merktir á sama stað síðasta vetur eða þá að þeir voru lengra að komnir. Farið er í gegnum þessar endurhemtur hér neðar. Sárast er að sjá hvað mikið af spörfuglum endar líf sitt í kattarkjafti. Höfum við fengið upplýsingar um fimm merkta fugla sem heimiliskettir hafa komið með til eigenda sinna, tvo hettusöngvara, tvo skógarþresti og einn stara.

 

Hettusöngvari (kvk). Náttúrustofan merkti 7 hettusöngvara síðasta haust og náði að auki einum merktum fugli. Að minnsta kosti tveir þessara fugla voru síðar drepnir af heimilisköttum.

 

 

Í desember á síðasta ári merktum við 90 snjótittlinga, 87, stara, 37 skógarþresti, 7 hettusöngvara, 4 glóbrystinga, 3 svartþresti og eina bókfinku. Allir voru fuglarnir veiddir í búr í garði við Vestmannabraut. Að auki endurheimtust nokkrir fuglar sem merktir hefðu verið fyrr í sama garði eða þá að þeir voru lengra að komnir.

Tveir snjótittlingar veiddust sem voru merktir á sama stað 5. janúar 2014.

Skógarþröstur kom í búr 10. desember en hann var merktur á sama stað 17. desember 2013.

Stari kom í búr 5. janúar síðastliðinn en hann var merktur á sama stað 6. desember 2013.

Skógarþröstur sem kom í búr 15. desember hafði verið merktur á Akureyri fyrr sama ár en við höfum ekki enn fengið nákvæmar upplýsingar um þennan fugl.

Hettusöngvari sem kom í búr 15. desember hafði verið merktur í Frakklandi 22. október sama ár.