Fréttir 2014

Farhættir skrofu

Náttúrustofa Suðurlands, í samstarfi við Barselónaháskóla og Yann Kolbeinsson á Náttúrustofu Norðausturlands, hefur rannsakað farleiðir og vetrarstöðvar skrofu allt frá árinu 2006. Þetta er gert með því að setja dægurrita á varpfugla í Ystakletti sem síðan eru endurheimtir á sama stað ári síðar. 

 

Skrofur (Puffinus puffinus) á sjó við varpstöðvarnar í Ystakletti.

Alls voru settir 84 dægurritar á skrofur á árunum 2006-2013 og hafa 62 þeirra náðst aftur. Í sumar náðust sex af átta dægurritum sem settir voru á sumarið 2013 og einn sem settur var á sumarið 2012 en náðist ekki í fyrra. Í sumar voru settir tíu dægurritar á skrofur og verður reynt að ná þeim aftur næsta sumar. Hér fyrir neðan eru tvær myndir sem sýna hluta þeirra gagna sem við höfum náð á undanförnum átta árum.

 

Kort sem sýnir farleið einnar skrofu frá maí 2006 til maí 2007. Skekkjan í staðsetningu er mest í kringum miðbaug og nálægt jafndægrum og er ólíklegt að þeir punktar sem eru langt inni í landi séu raunverulegir.

 

Kort sem sýnir hvar ein skrofa, með hreiður í Ystakletti, hélt sig frá 1. desember  til 1. mars á tímabilinu 2006-2012. Ekki náðust gögn um hvar hún hélt sig 2009-2010 þar sem tækið sem sett var á fuglinn 2009 bilaði.