Fréttir 2017

Fiðrildaveiðar 2017

Náttúrustofa Suðurlands var með ljósgildru til fiðrildaveiða í Stórhöfða í sumar áttunda árið í röð. Flestar Náttúrustofur landsins eru nú komnar með ljósgildrur og er söfnunin samstarfsverkefni með Náttúrufræðistofnun Íslands. Gildran bilaði um mitt summar í fyrra en gert var við hana í vetur og var hún sett upp 16. maí og hún losuð vikulega fram til 3. október.

Ertuygla (Melanchra pisi)

Eins og áður var rólegt í byrjun sumars og komu fyrstu fiðrildin ekki í gildruna fyrr en undir lok júní og mjög lítil veiði var í júlí. Ágæt veiði var svo í ágúst. Alls veiddust 232 fiðrildi í sumar sem er aðeins yfir meðaltali síðustu ára. Þann 11. október var farið með veiðina á Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ þar sem Erling Ólafsson greindi fiðrildin til tegunda. Grasvefari (Eana osseana) 110 stk. grasygla (Cerapteryx graminis) 52 stk. og brandygla (Euxoa ochrogaster) 39 stk. voru algengustu fiðrildin. Ellefu tegundir fiðrilda veiddust í ár, þar af ein ný tegund, ertuygla (Melanchra pisi), en alls hafa veiðst 24 tegundir í Stórhöfða. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá veiðina í ár og heildarveiðina frá 2010.

Nálgast má upplýsingar um flestar þær tegundir sem veiðst hafa í Stórhöfða á pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands.