Fréttir 2005

Surtsey á heimsminjaskrá?

Náttúrufræðistofnun falið að vinna skýrslu um málið

 

 

Samkvæmt heimildum sem Suðurland.is telur áreiðanlegar hefur verið tekin ákvörðun um það í heimsminjanefnd Menntamálaráðuneytisins að koma Surtsey á heimsminjaskrá. Ef það verður að veruleika þá verður Surtsey annar staðurinn á Íslandi inn á skrána en í fyrra voru Þingvellir settir inn á heimsminjaskrá. Til stóð að tilnefna Skaftafell en nú hefur Surtsey verið tekin fram fyrir, einkum vegna deilna um eignarhald á Skeiðarársandi.

 

Sömu heimildir herma að nú þegar hafi Náttúrufræðistofnun verið falið það verkefni að vinna skýrslu um málið og á hún að vera tilbúin 1. febrúar á næsta ári. Ríkisstjórn Íslands þarf að fjalla um málið og enn sem komið er hefur það ekki verið gert.

Ef af verður mun Surtsey komast á lista ásamt tæplega 800 menningar- og náttúruminjastöðum sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Staðir á heimsminjaskrá draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna og er talið öflugt tæki til minja- og náttúruverndar.

Lítið samráð hefur verið haft við Vestmannaeyinga um þetta mál, til að mynda vissu Náttúrustofa Suðurlands og bæjaryfirvöld ekki af þessu fyrr en á þriðjudag.

Heimsminjanefnd heyrir undir menntamálaráðuneytið og hvorki náðist í formann nefndarinnar né menntamálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.

 

 

 

Landtaka í Surtsey sumarið 2003. Tveir félagar í Björgunarfélagi Vestmannaeyja sjást hér aðstoða starfsmann Náttúrufræðistofnunar Íslands og tvo þýska ljósmyndara við að komast út í Surtsey. Undanfarin ár hefur landtaka verið mjög erfið þar sem engin sandfjara er lengur á tanganum nyrst á Surtsey og því tekst í fæstum tilvikum að koma fólki á land með þurra fætur.