Fréttir 2005

Silkitoppur heimsækja landið

Tegundin kemur hingað frá varpstöðum í Skandinavíu og Rússlandi og hverfur yfirleitt af landi brott áleiðis til varpstöðvanna síðla vetrar, seinni part apríl. Nú virðist önnur stór ganga vera að koma hingað, en 23. október síðastliðinn fundust fyrstu fuglarnir á Höfn. Til dagsins í dag (7. nóvember) hefur frést af a.m.k. 204 fuglum víðsvegar um landið. Silkitoppur hafa m.a. sést í Vestmannaeyjabæ, en fjöldinn var mestur sunnudaginn 6. nóvember er tuttugu fuglar flökkuðu milli garða þar sem fuglum er gefið.

 

Hvetur Náttúrustofan almenning til að gefa smáfuglunum í haust og vetur, en lítið þarf til að fá fugla í garðana hjá sér. Silkitoppurnar eru sólgnar í epli og aðra ávexti (ýmis konar ber), og er gott ráð að skera eplin í sundur og festa í trjám þar sem fuglar fá meiri frið frá köttum en ella (sjá ljósmynd tekna á Húsavík síðastliðinn vetur, http://www.hi.is/~yannk/myndir/rarity/gh_bomgar191104.jpg . Þrestir og ýmsir flækingsfuglar (t.d. söngvarar) sækja einnig í ávexti, en borða gjarnan brauð og ýmiss konar fitugan mat. Snjótittlingar sækja í korn sem selt er sérstaklega handa þeim í verslunum. Hægt er að fá finkutegundir (t.d. auðnutittling og fjallafinkur) í garða með því að setja út fræ (páfagaukafóður er ávallt vinsælt). Að lokum vill Náttúrustofan hvetja kattaeigendur til að kaupa bjöllur á kettina sína svo fuglarnir eigi sér meiri lífslíkur þegar þeir koma við í Vestmannaeyjum.