Fréttir 2005

Fuglafréttir, 13. október 2005

Í haust hefur verið óvenjurólegt hvað varðar komur flækingsfugla til Vestmannaeyja. Þó skilaði sér einn afar sjaldséður þröstur frá Norður Ameríku, moldþröstur Catharus ustulatus. Fannst hann í húsagarði við Birkihlíð þann 30. september.

Þann 5. október varð hans aftur vart, nú við Heimagötu og hefur hann sést þar allt til 12 .október. Þetta er einungis í 4. eða 5. skiptið sem þessi tegund finnst hérlendis og í fyrsta skiptið í Vestmannaeyjum. Þar af leiðandi vakti fuglinn athygli og í síðustu viku komu hingað fimm fuglaskoðarar til að berja hann augum (tveir frá Austur Skaftafellssýslu og þrír frá höfuðborgarsvæðinu).

 

Þann 5. október fannst einnig gulllóa Pluvialis dominica (til vinstri á myndinni hér til hliðar) innan um heiðlóur á túnum suður á eyju,en þetta er í 20. skiptið sem þessi ameríska lóutegund, náskyld heiðlóunni, finnst á Íslandi og í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum. Síðar um daginn sást brandugla Asio flammeus á Stórhöfða en líklegt er að hún hafi stoppað hér við á leið sinni til Evrópu.

 

Að lokum má nefna stormmáf Larus canus, en nokkrir slíkir hafa sést að undanförnu við Eiðið. Nokkur hundruð pör verpa á Íslandi af þeirri tegund (langmest í Eyjafirði) og á veturna má sjá stöku fugla hér og þar umhverfis landið.

 

Í dag fannst svo dulþröstur Catharus cuttatus við Heimisgötu, þetta er í tíunda sinn sem dulþröstur sést hér á landi.