Fréttir 2006

Litmerkt sandlóa á Heimaey.

Fimmtudaginn 11. maí voru nokkrar sandlóur ásamt hópi af tildrum í Víkinni norðan við Stórhöfða. Ein sandlóan var litmerkt og kom í ljós að þetta var kvenfugl sem Vigfús Eyjólfsson merkti á hreiðri þann 19. maí 2005 við bæinn Skipa skammt austur af Stokkseyri. Sást hún á merkingarstað 22. maí sama ár en hreiðrið var síðan rænt og sást hún ekki eftir það. Þetta er fyrsti aflestur á litmerktri sandlóu utan merkingarsvæðanna á Íslandi en aflestrar hafa borist frá stöðum utan Íslands eins og sagt var frá hér á síðunni 15. mars síðastliðinn.