Fréttir 2006

Fuglaathuganir í Vestmannaeyjum 2003-2005.

Áhugamenn um flækingsfugla hófu að leggja leið sína til Heimaeyjar, sérstaklega til þess að leita að flækingsfuglum, haustið 2003. Þeir hafa komið þangað árlega síðan, gjarnan í kjölfar öflugs lægðagangs, og jafnvel nokkrum sinnum yfir haustið. Hér er gerð grein fyrir helstu fuglum sem sáust árin 2003, 2004 og 2005 en haustið 2005 fylgdust starfsmenn Náttúrustofunnar vel með umferð farfugla og vetrargesta um Heimaey. Allar athuganir áttu sér stað á Heimaey nema annað komi fram. Ekki verður gerð grein fyrir athugendum en í hlut eiga, auk starfsmanna Náttúrustofunnar, heimamenn og gestkomandi fuglaskoðarar af suðvestur-, suðaustur- og norðausturlandi. Athuganir flækingsfugla frá 2004 og 2005 hafa ekki enn verið yfirfarðar af Flækingsfuglanefnd.

Íslenskir fuglar haustið 2005 (byggt að mestu á athugunum starfsmanna Náttúrustofu Suðurlands)

Frá ágúst fram í desember mátti sjá íslensku farfuglana hverfa af landi brott, hvern á fætur öðrum. Sandlóur Charadrius hiaticula sáust til a.m.k. 15. ágúst. Sanderlur Calidris alba og rauðbrystingar Calidris canutus sáust í litlu magni, fyrrnefnda tegundin sást síðast 19. september meðan að ungur rauðbrystingur tórði til 22. september. Síðasti lundi Fratercula arctica sem varð vart við (pysja sleppt af heimamönnum í Víkinni) sást 27. september. Fréttist af stakri blesgæs Anser albifrons í Herjólfsdal 29. september. Ung margæs Branta bernicla var í Klaufinni 30. september. Ungur tjaldur Haematopus ostralegus frá liðnu sumri hélt til í fiskhjöllunum til 6. október, en þann 19. október flæktust tveir ungfuglar á Heimaey og eyddu þeir vetrinum á svæðinu. Fáeinar maríuerlur Motacilla alba voru einnig í fiskhjöllunum en þar sást sú síðasta 8. október. Branduglur Asio flammeus neyddust til lendingar á Heimaey tvisvar um haustið, 5. október var ein á Stórhöfða og 16. október var ein við Ofanleiti. Stöku stelkar Tringa totanus sáust fram eftir hausti fram í byrjun október en hópur á flugi yfir bænum í þokuveðri að kvöldi 19. október, voru þeir síðustu sem sáust (eða heyrðist í í þessu tilviki). Þokusúld var yfir eyjunum 14.-16. október en þá birtust ýmsir farfuglar á Heimaey sem sáust annars ekki eða mjög sjaldan, má þar nefna mest sautján álftir Cygnus cygnus, fjórtán grágæsir Anser anser (fáeinar sáust til 11. nóvember) og sjö helsingja Branta leucopsis. Í kjölfar þokunnar og suðaustanvindanna fjölgaði hettumáfi Larus ridibundus mjög og náði hámarki 20. október (u.þ.b. 450 fuglar á hafnarsvæðinu), annars sáust 5-20 fuglar allt haustið. Síðasti sílamáfur Larus fuscus ársins, ungfugl, sást á hafnarsvæðinu 19. október. Heiðlóur Pluvialis apricaria sáust út haustið í mismiklu magni (t.d. 122 fuglar 20. október) en sú síðasta sást 29. október. Síðasti þúfutittlingurinn Anthus pratensis var í fiskhjöllunum 9. nóvember og fréttist af síðasta steindeplinum Oenanthe oenanthe 11. nóvember. Skógarþröstum Turdus iliacus fjölgaði á Heimaey um 13. október, en um það leyti hópast þeir saman og undirbúa brottför á suðlægari slóðir. Út október og nóvember mátti sjá skógarþresti í mismiklu magni, en að kveldi 10. nóvember voru 260 fuglar á náttstað í einum garði. Þann 26. nóvember voru þeir enn u.þ.b. 200 í sama garði. Smyrlar Falco columbarius voru reglulegir gestir allt haustið, en flestir sáust þeir 6. nóvember (4-5 fuglar).

Af vetrargestum kom sá fyrsti 27. september, ungur bjartmáfur Larus glaucoides. Auðnutittlingur Carduelis flammea sást fyrst 28. september, við Ofanleiti, en út haustið mátti gjarnan sjá litla hópa (t.d. sex fuglar 6. nóvember). Ung hrafnsönd Melanitta nigra var við Brimurð 28. september. Hrafnsönd er afar sjaldséð á sunnan- og vestanverðu landinu en hún verpir á norðausturlandi. Himbrimi Gavia immer sást fyrst 13. október, en flestir voru þeir fimm í Víkinni 19. október. Þann 13. október sást fyrsti toppskarfurinn Phalacrocorax aristotelis sem er óalgengur vetrargestur á svæðinu (aldrei sáust fleiri en tveir samdægurs síðar um haustið). Músarrindill Troglodytes troglodytes sást fyrst 15. október en þeir fyrstu hafa hugsanlega komið í seinnihluta september þó þeir hafi ekki sést.  Fáeinir starar Sturnus vulgaris flæktust um haustið, en fyrsti sást 19. október. Líklega er um skandinavíska fugla að ræða sem hafa verið á leið til Vestur-Evrópu er þeir lentu í suðaustan vindum og flæktust til Eyja eins og svo margir aðrir smáfuglar. Straumendur Histrionicus histrionicus halda til við vestanverða Heimaey á veturna en sjást ekki nema í vestanveðrum þegar þær koma upp að Eiðinu, en það gerðist 21.-23. nóvember þegar 38 fuglar sáust í hóp. Stakur fálki Falco rusticolus sást á Sæfjalli 25. nóvember.

Flækingsfuglar

Gráskrofa Puffinus griseus

Fremur sjaldséður fargestur á íslensku hafsvæði, sem sést aðallega síðsumars og snemma á haustin. Hópur fuglaskoðara sá einn fugl u.þ.b. 21 km suðaustur af Heimaey þann 21. ágúst 2004. Í ágúst 2005 sáust fimm fuglar á sjónum umhverfis eyjarnar.

Gráhegri Ardea cinerea

Gráhegrar eru tíðir gestir í Eyjum, en þó ekki árlegir. Stakur fugl sást við Heimaklett 29. ágúst 2003 og þann 18. september 2003 sást einn á flugi yfir Vestmannaeyjabæ.

Æðarkóngur Somateria spectabilis

Fremur sjaldgæfur gestur við Vestmannaeyjar sem sást síðast 1998. Tveir fuglar héldu til með æðarfuglum utan við Brimurð í nóvember 2005; kvenfugl 6. og 22. og karlfugl þann 10.

Dílarella Porzana porzana

Mjög sjaldgæfur flækingur á Íslandi sem hafði fundist einu sinni áður á Heimaey, árið 1961. Þann 13. október 2004 náðist ein aðframkomin í bænum og lést hún skömmu síðar. Um var að ræða 8. dílarelluna sem finnst á Íslandi.

Keldusvín Rallus aquaticus

Stakur fugl sást innan um melgresið við Löngu 11. nóvember 2005 og er þar um fjórða fundinn að ræða í Eyjum.

Gulllóa Pluvialis dominica

Ungfugl fannst ofan við Breiðabakka þann 5. október 2005 innan um heiðlóur. Flakkaði víða um eyjuna en hann sást m.a. á Stórhöfða og í grennd við Herjólfsdal, allt til 14. október. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund finnst í Eyjum.

Grálóa Pluvialis squatarola

Grálóa er mjög sjaldgæf í Eyjum og sást nú í fjórða sinn, þann 22. september 2003.

Vepja Vanellus vanellus

Vepjan er algengur gestur sem finnst því sem næst árlega auk þess sem hún hefur orpið einu sinni á Heimaey, sumarið 1965. Stakur fugl sást 5. júlí 2003 en allt að sex sáust á tímabilinu 12.-16. nóvember 2003 í graslendi suður á eyju. Ein vepja sást 2.-5. apríl 2004.

Fjöruspói Numenius arquata

Fremur sjaldséður flækingur í Vestmannaeyjum. Einn sást á Ofanleitislandi þann 9. ágúst 2005.

Hringmáfur Larus delawarensis

Ungur fugl sást á hafnarsvæðinu 10.-11. nóvember 2005. Tegundin hafði einu sinni áður sést í Eyjum, það var fullorðinn fugl sem náðist 25. apríl 1990. Sá hafði verið merktur sem fullorðinn í Bergen, Noregi 21. nóvember 1983 (og sást þar á hverjum vetri þar til hann sást í Eyjum).

Sílaþerna Sterna hirundo

Ungur fugl kom á bát rétt við Surtsey 21. janúar 2004 sem má teljast mjög óvenjulegur tími fyrir þernu á svo norðlægum slóðum! Þetta var í þriðja sinn sem sílaþerna finnst hérlendis en sú fyrsta fannst dauð á Heimaey í nóvember 1964.

Hringdúfa Columba palumbus

Tíður vor- og haustgestur í Eyjum. Árið 2003 fundust fjórar hringdúfur, allar í Vestmannaeyjabæ, tvær 24. apríl og tvær 8.-9. nóvember (ein sást til 19. nóvember). Ein var í Skansinum 11. nóvember 2005.

Eyrugla Asio otus

Ein hélt til í húsagörðum 16. október 2005, í kjölfar suðaustlægra vinda. Eyruglur höfðu sést fjórum sinnum áður í Eyjum.

Múrsvölungur Apus apus

Þessi evrópska tegund finnst sennilega hvergi eins oft og reglulega á Íslandi og í Heimaey. Árið 2003 var engin undantekning frá þeirri reglu, einn fugl hélt til í bænum 2.-10. júní, en dagana 9.-10. júní voru þeir tveir. Einn fugl sást við Sæfjall 22. ágúst 2004.

Beltaþyrill Ceryle alcyon

Karlfugl í höfninni dagana 10.-12. október 2003 var fimmti fugl þessarar amerísku tegundar á Íslandi. Í Vestmannaeyjum hafði beltaþyrill fundist einu sinni áður, í lok september 1901.

Sönglævirki Alauda arvensis

Sönglævirkjar eru fremur sjaldséðir í Eyjum, en tveir fundust á Ofanleiti þann 9. nóvember 2003. Einn fugl fannst á Stórhöfða 19. október 2005.

Landsvala Hirundo rustica

Reglulegur vorgestur sem kemur stundum í miklu magni. Flækist einnig á haustin og hefur einu sinni orpið í Heimaey, árið 1892. Þann 9. maí 2003 fundust a.m.k. tíu landsvölur í bænum og stöldruðu sumar þeirra við til 19. maí. Þann 8. júní 2003 fundust svo tvær. Árið 2004 fundust tveir fuglar; ein 2. júní og fullorðinn fugl sást 4. október. Vorið 2005 sást ein landsvala 24. apríl.

Bæjasvala Delichon urbicum

Reglulegur gestur í Eyjum, eins og landsvalan, en þó í mun minna magni en sú síðarnefnda. Hefur tvisvar sinnum orpið í Heimaey, árin 1959 og 1966. Fjórir fuglar fundust 1. júní 2003 og sást einn þeirra aftur 2. júní. Tvær sáust 2. júní 2004. Haustið 2005 sást einn fugl, á hafnarsvæðinu 16. október.

Straumerla Motacilla cinerea

Straumerla fannst í þriðja sinn í Heimaey þann 18. október 2003, en haustið 2003 átti sér stað stærsta ganga þessarar tegundar hérlendis (samtals 8 fuglar fundust seinnipart haustsins, þ.a. fjórar 18. október).

Sedrustoppa Bombycilla cedrorum

Fullorðinn fugl fannst í bænum 8. október 2003. Var það annar fundur tegundarinnar á Íslandi, og einungis sá fjórði í Evrópu en hér er um að ræða ameríska tegund.

Silkitoppa Bombycilla garrulus

Tvær sáust 28. október til 13. nóvember 2003. Haustið 2004 komu fleiri fuglar, fimm fundust 16. október og þær voru orðnar a.m.k. tuttugu 21. október en u.þ.b. 250 fuglar fundust víðsvegar á landinu í október 2004. Óvenjumargar sáust í nóvember 2005; þær fyrstu (tvær) fundust þann 2. og náði fjöldinn hámarki þann 8. (36 fuglar). Sáust þær svo reglulega til a.m.k. 26.

Glóbrystingur Erithacus rubecula

Glóbrystingar sjást hér reglulega. Einn fugl sást við Breiðabakka 17. október 2003. Einn hélt til í Víkinni 16.-19. október 2005. Einn var í bænum 8.-10. nóvember 2005.

Dulþröstur Catharus guttatus

Þessi ameríski þröstur sást fyrst á Heimaey árið 1981. Dagana 13.-15. október 2005 hélt einn til með skógarþröstum í bænum og laðaði hann einnig að sér fuglaskoðara af höfuðborgarsvæðinu. Þetta var tíundi fundurinn á landsvísu, en tegundin er hvergi eins regluleg og á Íslandi í Evrópu.

Moldþröstur Catharus ustulatus

Þessi ameríski þröstur hélt til í bænum frá 30. september til 7. október 2005. Þetta var í fyrsta sinn sem tegundin fannst í Eyjum og aðeins fjórði fundurinn á landsvísu enda dró hann til sín fuglaskoðara af höfuðborgarsvæðinu og úr Hornafirði!

Söngþröstur Turdus philomelos

Fremur sjaldgæf tegund í Eyjum. Einn fugl sást í bænum 12. nóvember 2003. Einn fugl sást 3. október 2004. Tveir fuglar fundust í grennd við fiskhjallana dagana 15.-20. október 2005 og sá þriðji bættist í hópinn 21. október.

Farþröstur Turdus migratorius

Einn fugl fannst í Klaufinni 6. október 2003. Um er að ræða mjög sjaldgæfan, amerískan flæking sem hefur nú fundist þrisvar sinnum á Heimaey og aðeins einu sinni annars staðar á Íslandi.

Sefsöngvari Acrocephalus scirpaceus

Þessi tegund hefur tvisvar fundist í Eyjum með vissu, en afar erfitt er að greina tegundina og þarf helst að hafa fuglinn í hendi til að greining sé örugg. Þann 4. október 2004 sást fugl skjótast í görðum bæjarins sem talinn er hafa verið af þessari tegund en það mun væntanlega ekki ná lengra…

Elrisöngvari Acrocephalus dumetorum

Mjög sjaldgæfur gestur frá Austur-Evrópu og Asíu. Einn fugl náðist örmagna í mistnet, og dó skömmu síðar, þann 17. október 2003. Þetta var fimmti fundur tegundarinnar á Íslandi og sá fyrsti í Vestmannaeyjum (sama dag fannst einn í Suðursveit).

Hettusöngvari Sylvia atricapilla

Nokkuð algengur haustflækingur sem sést helst eftir ákveðnar suðlægar og austlægar áttir. Þann 17. október 2003 sáust a.m.k. níu fuglar víðsvegar um bæinn, fjórir sáust 18. október, einn 19. október, fjórir 28. október og loks stakur kvenfugl 8. nóvember. Haustið 2004 varð vart við a.m.k. fimm fugla, sáust flestir þann 16. október. Haustið 2005 fannst fyrsti fuglinn (kvenfugl) þann 15. október. Eftir það fjölgaði þeim jafnt og þétt og náðu hámarki þann 20. október (sautján fuglar víðsvegar á Heimaey) ! Einstakir fuglar þraukuðu í görðum fram í nóvember.

Garðsöngvari Sylvia borin

Nokkuð reglulegur haustgestur í Eyjum. Tveir sáust haustið 2004, 4. og 14. október. Einn sást 15. október 2005.

Hauksöngvari Sylvia nisoria

Austrænn söngvari sem sást í sjötta sinn á Heimaey 17.-18. október 2003. Aftur fannst einn 2. október 2004.

Netlusöngvari Sylvia curruca

Sjaldséður gestur í Eyjum sem sást þann 17. október 2003. Tveir sáust í október 2004, dagana 2.-3. og þann 14. Einn fugl sást 20. október 2005.

Þyrnisöngvari Sylvia communis

Einn hélt til í fiskhjöllunum 16.-20. október 2005 og þar með bættist tegundin á Vestmannaeyjalistann.

Hnoðrasöngvari Phylloscopus inornatus

Hnoðrasöngvarar verpa í Asíu en eru árlegir flækingar hérlendis. Hann fannst í fjórða sinn á Heimaey þann 17. október, sama dag og fjölmargir aðrir austrænir flækingar. Þann 4. október 2004 sást enn á ný hnoðrasöngvari í Vestmannaeyjabæ.

Gransöngvari Phylloscopus collybita

Tveir fundust haustið 2003, þann 17.-18. október og 28. október. Einn sást 14. október 2004. Haustið 2005 sást fyrsti fuglinn, eins og hettusöngvarinn, 15. október. Síðan fjölgaði þeim og náðu hámarki 20. október (sjö fuglar!).

Laufsöngvari Phylloscopus trochilus

Árlegur haustgestur eins og gransöngvarinn. Haustið 2003 fundust fimm fuglar, tveir þann 15. september og einn 6. og 17. október og loks 8. nóvember. Einn sást 16. október 2004. Tveir sáust 15. október 2005, en aðeins einn daginn eftir.

Grágrípur Muscicapa striata

Þriðji grágrípurinn á Heimaey hélt til í Víkinni 19.-20. október 2005.

Bláhrafn Corvus frugilegus

Frekar reglulegur gestur í Eyjum á árum áður en sjaldgæfari á síðari árum. Stakur fugl sást 21. október 2004.

Bókfinka Fringilla coelebs

Reglulegur flækingur í Eyjum. Stakur kvenfugl sást í Víkinni 16. október 2005.

Fjallafinka Fringilla montifringilla

Algengur haustflækingur sem flækist einnig hingað á vorin. Þrettán fugla hópur fannst í bænum þann 17. október 2003 og sáust nokkrar þeirra út mánuðinn. Tvær sáust 14. október 2004. Sex fuglar fundust 19. október 2005 og sáust þrjár þeirra aftur daginn eftir. Ein sást 5. nóvember 2005.

Barrfinka Carduelis spinus

Mjög sjaldgæfur flækingur í Vestmannaeyjum en tiltölulega reglulegur á landsvísu. Kvenfugl sást á fáeinum stöðum 16.-19. október 2005 en karlfugl sást í bænum 20. október 2005. Fugl sást á flugi yfir bænum 6. nóvember 2005.

Rósafinka Carpodacus erythrinus

Rósafinka fannst í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum þann 17. október 2003. Tegundin er annars því sem næst árleg á Íslandi. Aftur sást hún 14.-16. október 2004.

Kjarnbítur Coccothraustes coccothraustes

Fyrsti kjarnbítur sem finnst í Eyjum sást snemma dags í Víkinni 16. október 2005 og síðdegis fannst hann aftur í görðum inni í bænum.

Bláskríkja Dendroica caerulescens

Mjög sjaldgæfur flækingur sem kemur frá Norður-Ameríku. Kvenfugl sást í bænum dagana 17.-18. október 2003. Þetta var í annað sinn sem tegund fannst á Heimaey sem og í Evrópu!

Rákaskríkja Dendroica striata

Fram til ársins 2005 höfðu fundist átta rákaskríkjur á landinu, en í seinnihluta október 2005 fundist hvorki fleiri né færri en fimm fuglar á sunnanverðu landinu! Ein þeirra hélt til í Víkinni 18.-20. október, en hún er jafnframt sú þriðja sem finnst í Eyjum (fyrstu tvær sáust 1972 og 1979).

Sportittlingur Calcarius lapponicus

Árlegur vor- og haustgestur á Íslandi sem sést gjarnan í smáhópum. 53 fuglar höfðu fundist í Eyjum fyrir 2003. Þann 3. október 2004 sást stakur fugl í Víkinni. Karlfugl sást á Ofanleitislandi 15. september 2005. Annar karlfugl sást í grennd við Breiðabakka 15.-16. október 2005.