Fréttir 2011

Varpárangur ritu í Skiphellum á Heimaey

Varpárangur ritu (Rissa tridactyla) var kannaður í Skiphellum á Heimaey um mánaðarmót júlí og ágúst árin 2009-2010. Taldir voru ungar í rúmlega 100 setrum hvort árið. Niðurstöður voru þessar:

 

2009 = 0,26 ungar á par (n = 109)

2010 = 0,69 ungar á par (n = 127). 

 

Hluti varpsins í Skiphellum.

Áætlað er að mynda varpið árlega og mæla varpárangur beint af myndunum. Ritan er ákjósanleg rannsóknategund sem áviti (vísitala) um breytingar á bjargfuglastofnum þar sem hún er auðtalin og útbreidd og lifnaðarhættir hennar eru vel þekktir (Arnþór Garðarsson 2006a. Viðkoma ritu sumarið 2005. Bliki 27: 23-26).

Varpárangur ritu umhverfis Ísland hefur verið vaktaður af Arnþóri Garðarssyni og samstarfsmönnum á sjö varpstöðvum síðan 2005.  Fyrirhugað er að birta niðurstöður úr Skiphellum árlega hér á heimasíðu Náttúrustofu Suðurlands sem viðbót við þessa vöktun, en ritan hefur einmitt verið í uppgangi í Eyjum öfugt við stöðuna á landsvísu (Arnþór Garðarsson 2006b. Nýlegar breytingar á fjölda íslenskra bjargfugla.  Bliki 27: 13-22). 

Varpárangurinn í Skiphellum var slæmur 2009 (sem má almennt segja um <0,5 unga/hreiður) og svipað í nálægustu töldum vörpum sem eru í Krísuvík og Dyrhólaey.  Aftur á móti var mun betra ástand 2010, þótt aðeins sæjust tveir ungar í einu hreiðri, og vekur það athygli þar sem viðkoma lunda var engin á sama tíma!  Ritur í Eyjum virðast allavega ekki þurfa að treysta eingöngu á síli nálægt byggð líkt og lundinn gerir.  Hvað þær eru að éta og hvar er hinsvegar verðug rannsóknaspurning.