Óhætt er að segja að frekar hlýtt hafi verið í Vestmannaeyjum undanfarnar vikur og má sjá það greinilega í húsagörðum. Yllirinn í garðinum hjá mér er t.d. farinn að laufgast og einnig má sjá glitta í grænt á flestum rósarunnunum. Þetta er um mánuði fyrr en í fyrra en þá kól líka allt heila klappið í maí og tók ekki við sér aftur fyrr en vel var komið fram í júlí. Spurning hvort það sama gerist ekki í ár.
En það er ekki bara gróðurinn sem lætur plata sig. Eitthvað hefur heiðlóan á myndinni hér fyrir ofan heyrt af veðrinu og hún var mætt á tún í Steinstaðaheiði síðdegis í dag, mánuði fyrr en fyrstu heiðlóurnar eru vanar að láta sjá sig á Íslandi. Í Eyjum hafa verið stífar sunnanáttir og fullvíst að þetta sé ekki vetursetu fugl ofan af fastalandinu. Líklegast er þó um einstakt tilvik að ræða og varla við því að búast að allt fyllist af heiðlóum á næstu dögum.