Fréttir 2010

Talsvert hrun úr Bjarnarey

Nokkuð hefur hrunið úr Bjarnarey síðustu daga í a.m.k. þremur atburðum.

 

Norðvesturhorn Bjarnareyjar þar sem sjá má þrjú brotsár. Nýjasta og minnsta hrunið er lengst til vinstri á myndinni og svo má sjá tvö brotsár í bergstálinu fyrir miðri mynd. Efst hefur hrunið úr efstu brún og svo hefur stór fylla farið rétt ofan við mitt bergstálið.

Fyrst sást að hrunið hafði úr lofti Brekahellis þann 4. maí en það var svo um klukkan fjögur að morgni 11. maí sem mesta hrunið varð (sjá líka www.bjarnarey.is). Það hrun kom fram á Jarðskjálftamæli Veðurstofu Íslands á Heimaey sem tveir litlir jarðskjálftar með þriggja sekúndna millibili rétt fyrir klukkan fjögur (www.vedur.is). Loks varð lítið hrun 12. eða 13. maí. Starfsmaður Náttúrustofunnar fór og skoðaði aðstæður í morgun og tók þá meðfylgjandi myndir. Líklegasta atburðarásin 11. maí er að fyrst hafi hrunið úr efstu brún og það efni lent ofan á móberginu ofan við Brekahelli sem þá hrundi saman og lagðist efnið yfir Brekaflá (sjá má mynd af Brekahelli og Brekaflá fyrir hrun á www.bjarnarey.is). Í efstu brún er bæði móberg og gjall en lítið sést af gjalli í skriðunni ofan á Brekaflá sem bendir til þess að það efni hafi komið niður á undan. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru í morgun.

Hér sést brotsárið í gjallinu við efstu brún.

 

Skriðan ofan á Brekaflá. Stærstu björgin eru yfir þúsund tonn að þyngd og ljóst að hrunið mælist í tugþúsundum tonna.

 

Hér sést aðeins í Brekaflá undir hruninu.

 

Hér má sjá þrjú brotsár. Lengst til vinstri má sjá sárið eftir nýjasta hrunið frá 12. eða 13. maí og hluta efnisins á fláanum fyrir neðan. Efst fyrir miðri mynd sést sárið við brúnina og þar fyrir neðan sést aðal brotsárið og svo skriðan ofan á og umhverfis Brekaflá.

 

Hér sést vel stærra brotsárið sem nær aðeins upp fyrir  miðja mynd. Síðan er smærra brotsár við brúnina en á milli hefur ekkert brotnað úr berginu.