Fréttir 2010

Vikur og gjallmolar á fjörum Heimaeyjar

Það hefur oft sést vikur í þessum sömu fjörum eftir miklar leysingar á vorin en þá hefur það verið nokkurð grófur, ljós Hekluvikur sem hefur borist hér á land eftir að ár á fastalandinu hafa skolað honum til sjávar. Sá vikur sem nú berst á land er hins vegar mun dekkri og án vafa ættaður úr Eyjafjallajökli. Auk vikursins fundust fjórir svartir mjög blöðróttir hraun eða gjallmolar og var sá stærsti 15,0 x 9,8 x 5,8 sm að stærð. Molarnir eru að mestu svart gler, eða hraðkæld bergkvika en einnig má sjá stöku kristal, líklega eru þar bæði plagíóklas og ólivín kristallar. Verður að ætla að þessir molar hafi borist frá gosstöðvunum með bræðsluvatni niður Gígjökul og með Markarfljóti út í sjó og síðan til Eyja. Stefnt er því að efnagreina þessa bergmola við fyrsta tækifæri.

 

Vikurskafl í fjörunni í Höfðavík.

 

Hraunmolar sem fundust í Höfðavík. Þeir eru mjög blöðróttir og ná þess vegna að fljóta.