Fréttir 2011

Landsvölur í Eyjum

Sunnanáttin síðasta laugardag bar með sér nokkuð af flækingum til Eyja auk farfugla. A.m.k. sex landsvölur og ein bæjasvala sáust við höfnina og af farfuglum sáust bæði sandlóa og þúfutittlingur í fyrsta sinn í ár.

 

Landsvala (Hirundo rustica) í Vestmannaeyjum 9. apríl 2011.

Lóum, tjöldum og tildrum fjölgaði mikið um helgina og stór hópur af hettumáfum var við golfvöllinn. Einnig sáust tvær stokkendur bæði við Klauf og í Vestmannaeyjahöfn í gær en þær sjást hér helst á vorin eða haustin.

 

 

Landsvölurnar voru viljugar fyrirsætur. Þær lifa á skordýrum og þar sem ekki er mikið af þeim á ferðinni þessa stundina er ekki víst að svölurnar verði langlífar.