Fréttir 2006

Hvar eru pysjurnar?

Það hefur ekki farið framhjá neinum í Vestmannaeyjum að pysjurnar hafa ekki enn látið sjá sig. Í fyrra fannst sú fyrsta þann 12. ágúst en oft byrja þær að koma í kringum Þjóðhátíð. Menn velta nú vöngum yfir því hvað sé eiginlega í gangi. Samspilið milli sjófugla og fæðu í sjónum er gríðarlega flókið og það er ekki hægt að benda á neitt eitt í sambandi við þann fæðuskort sem lundinn berst við núna. Sandsílastofninn virðist vera mjög lítill við Eyjar og lundinn hefur því ekki getað fætt pysjurnar sínar vel í sumar. Stálpuð pysja þarf um þriðjung af þyngd sinni til að komast vel af. Varp hófst einnig mjög seint í vor vegna kuldakasts og það er ein hugsanleg ástæðan fyrir því hve seint pysjurnar eru í ár. Við verðum því bara að bíða og vona að pysjurnar fari að koma og minnum á Pysjueftirlitið og www.lundi.is .