Fréttir 2013

Flækingur og farfuglar

Eitthvað er nú farið að tínast inn af farfuglum þrátt fyrir óhagstæð skilyrði. Heiðlóur og hrossagaukar eru farnir að sjást á Heimaey og þrjár álftir hafa haldið til í Herjólfsdal síðustu daga. Skógarþröstum hefur fjölgað og einnig hefur mátt sjá urtendur og gæsir. Margæs hefur haldið til í Víkinni en flestar gæsirnar stoppa ekkert hér. Í Landeyjum eru nú stórir hópar álfta og gæsa á flestum túnum, grágæsir, heiðagæsir, blesgæsir og helsingjar. Auk farfuglanna sást þessi myndarlegi kjarnbítur í Vestmannaeyjabæ í gær og í morgun.

 

Kjarnbítur (Coccothraustes coccothraustes) í reynitré í Vestmannaeyjabæ.

Kjarnbítur (enska: Hawfinch) er frekar sjaldgæfur flækingur á Íslandi og eru aðeins um 30 fuglar skráðir. Kjarnbítur hefur einu sinni sést áður á Heimaey, þann 16. október árið 2005.

 

Kjarnbíturinn nældi sér í sólblómafræ og mör á fóðurbretti.