Fréttir 2008

Farhættir skrofa.

Sumarið 2006 voru gagnaritar (gangritar, e: geolocator) settir á 20 skrofur í Ystakletti og tókst að endurheimta tíu af þeim sumarið 2007. Verða það að teljast mjög góðar endurheimtur og þá sérstaklega þar sem í ljós kom að kettir höfðu komið sér fyrir í skrofuholum í miðju varpinu. Nýir gagnaritar voru settir á sömu fugla og náðust 6 þeirra í fyrstu tilraun 9-11. júní 2008. Áfram verður reynt að ná þeim fuglum sem eftir eru og einnig verða nýir gagnaritar settir á allt að 15 fugla í sumar. Skrofan er holufugl og verpir árum saman í sömu holuna. Þannig er hægt að ná þeim aftur á sama stað og þær eru merktar.

 

Merkt skrofa með gagnarita í Ystakletti. Skrofurnar eru merktar með stálhring á hægri löpp og svo eru gagnaritarnir settir ásamt plasthring á vinstri löpp. Þegar eru komnar athyglisverðar upplýsingar um farleiðir skrofanna í Ystakletti og verður nánar fjallað um það hér á síðunni síðar í sumar.