Fréttir 2012

Eldfell fer kólnandi

Nýjar mælingar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrustofu Suðurlands sýna að Eldfell í Vestmannaeyjum hefur kólnað verulega síðan hiti var mældur þar árið 1990 og búast má við áframhaldandi kólnun næstu árin. Í Eldfelli er að finna fjölda útfellingasteinda og eru sex þeirra nýjar fyrir jarðvísindin.

 

Sveinn P. Jakobsson, Sigurður K. Guðjohnsen og Ingvar Atli Sigurðsson við mælingar í blíðskaparveðri í Vestmannaeyjum. Ljósm. Lovísa Ásbjörnsdóttir.

Dagana 11. og 12. júní sl. mældu sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrustofu Suðurlands hita í Eldfelli með það að markmiði að kanna útbreiðslu hans, en 39 ár eru frá goslokum í Heimaey. Hiti var mældur á 178 stöðum í fellinu, á um 15 sm dýpi. Um er að ræða mælingar á lofti sem blandað er heitum gastegundum sem koma úr kólnandi bergi í rótum eldfjallsins og stíga upp í gígbarma Eldfells. Útbreiðsla hitasvæðisins miðast við 20°C hita til að sneiða hjá hugsanlegum áhrifum sólar.

 

 

 

Á loftmyndunum hér að ofan má sjá útbreiðslu jarðhita í Eldfelli árin 1990 og 2012. Sýndar eru jafnhitalínur fyrir 50°C, 100°C og 200°C hita, en á myndinni fyrir árið 2012 er jafnframt dregin jafnhitalína fyrir 20°C hita (græn brotalína). Það skal tekið fram að hiti getur verið meiri en 20°C á meira dýpi en 15 sm og á mun stærra svæði en sýnt er á kortinu. Jarðhitasvæðið takmarkast nú við eystri gígbarminn. Þrjú lítil svæði á háegginni eru meira en 200°C heit. Hæsti hiti á 15 sm dýpi mældist 290°C og er staðurinn merktur á kortinu. Sumarið 2009 mældust 450°C á 40 sm dýpi á sama stað og er líklegt að hiti sé svipaður þar enn í dag. Lítið afmarkað hitasvæði á báðum myndunum er „gamla rúgbrauðsgerðin“, en þar mældist hiti nú rétt rúmlega 20°C.

Samanburður leiðir í ljós að Eldfell hefur kólnað verulega síðan 1990, sérstaklega vestan og norðan megin. Svæðið með meira en 50°C hita er nú aðeins 5.300 fermetrar en var tæplega 69.000 fermetrar árið 1990. Sömuleiðis hefur svæðið með meira en 100°C hita minnkað verulega eða úr 5.600 fermetrum í 2.100 fermetra. Búast má við áframhaldandi kólnun í eldstöðinni næstu árin en á afmörkuðu svæði í háegg Eldfells mun jarðhitinn haldast lengst.