Fréttir 2010

Ástand nokkurra lundabyggða á Íslandi

Eftirtaldir staðir voru heimsóttir í blíðskaparveðri: Ingólfshöfði, Papey, Stórhólmi í Reyðarfirði, Hafnarhólmi í Borgarfirði Eystri, Lundey á Skjálfanda, Grímsey, Drangey í Skagafirði, Vigur í Ísafjarðardjúpi, Sýrey við Flatey í Breiðafirði og Elliðaey í Breiðafirði. Farið var í Akurey á Faxaflóa viku síðar. Tilgangur ferðarinnar var að mæla ábúðarhlutfall varphola lunda á landsvísu og er verkefnið styrkt af Veiðikortasjóði. Frumniðurstöður sýna að ábúðarhlutfall er að meðaltali um 75% ±5,8% (SD, n=9). Þrjár byggðir hafa áberandi lægra ábúðarhlutfall (Ingólfshöfði, Hafnarhólmi og Akurey). Egg voru afrækt að einhverju leyti í þrem vörpum: Ingólfshöfða (13,9%), Papey (6,8%) og Grímsey á Steingrímsfirði (5,0%). Einnig kom í ljós að tímasetning varps er mjög breytileg innan og á milli landshluta. Sést þetta á klakhlutfalli eggja. Í ár urpu lundar í Vestmannaeyjum í sama hlutfalli og þetta nýja landsmeðaltal og er þetta hæsta varphlutfall í Eyjum síðan mælingar hófust 2007. Aðeins var orpið í 40% hola 2007, 62% 2008 og 50% 2009, sem samsvara 455.000, 705.000, og 569.000 varppörum, (miðað við að heildarfjöldi varphola í Vestmannaeyjum sé 1.137.000 holur). Varpstofn Vestmannaeyja 2010 er því um 860.000 pör.