Náttúrustofa Suðurlands, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Oregonháskóla, hefur látið aldursgreina fjögur bergsýni úr norðurhluta Heimaeyjar og voru niðurstöðurnar kynntar með veggspjaldi á vorráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 27. apríl 2007. Útdrátt veggspjaldsins má lesa hér og hægt er að skoða það hér. Í stuttu máli kemur í ljós að Norðurklettarnir eru allir töluvert eldri en áður hefur verið talið. Heimaklettur, Klifið og Blátindur eru allir um 40 þúsund ára gamlir og myndaðir við gos undir jökli. Háin er lítið eitt eldri og bendir allt til þess að hún hafi myndast við gos í sjó við svipaða sjávarstöðu og nú.
Hluti Norðurklettanna séður úr suðri. Háin fyrir miðju er elst, þá koma Heimaklettur, svo Klifið og loks Blátindur.
Hér eru merktar inn mismunandi bergmyndanir í Dalfjalli og Blátindi. 1) Alkalíólivínbasaltinnskot. Þessi myndun er fallega stuðluð og myndar meðal annars fílinn austast í Dalfjalli. 2) Móberg sem að öllum líkindum er orðið til á sama tíma og 1. 3) Hawaiítbólstraberg. 4) Hawaiítkubbaberg. 5) Nokkur lög af samlímdum hawaiítkleprum með gjalli á milli.