Náttúrustofa Suðurlands, ásamt Hafrannsóknastofnuninni, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúru- og Fiskasafni Vestmannaeyja, fær í ár Rannsóknastyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands til rannsókna á lundastofninum við Vestmannaeyjar. Dr. Erpur Snær Hansen sviðstjóri hjá Náttúrustofu Suðurlands er verkefnisstjóri. Verkefnið er til þriggja ára og er heildarkostnaður verkefnisins rúmar 65 milljónir króna. Styrkurinn frá Rannís í ár er tæpar 6 milljónir auk þess sem sami hópur fær rúma eina milljón frá Tækjasjóði Rannís en þar er Páll Marvin Jónsson, hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum fyrsti umsækjandi. Hér á eftir fer stutt lýsing á verkefninu:
Stærsta lundavarpstöð heimsins er í Vestmannaeyjum en þar verpur um 20% heimsstofnsins eða um 1.150.000 pör. Lundi er mest veiddur fugla á Íslandi eða um 100.000 fuglar í Vestmannaeyjum árlega. Léleg nýliðun hefur orðið hjá lunda í Vestmannaeyjum þrjú síðastliðin ár sem talið er orsakast af mikilli minnkun á marsílastofninum. Markmið þessara rannsókna er að: (1) Lýsa stofngerð og breytingu á stærð sílastofnsins sem er mikilvæg fæðuuppspretta sjófugla, hvala og nytjafiska hérlendis. (2) Meta gagnkvæm áhrif síla- og lundastofnanna á stærð hvors annars. (3) Kanna áhrif veiða á viðkomu lunda og veita ráðgjöf. (4) Kanna áhrif veðurfars á stærð síla og lundastofnanna. Samband stofnstærðar sílastofnsins og nýliðunar lunda verður mælt beint: Stofnstærð, dánarlíkur, nýliðun og grunnforsendur í úrvinnslu eldri merkingagagna er metið með “merkinga-endurveiði” rannsókn. Samhliða er fyrirhuguð úrvinnsla tveggja langtíma gagnaraða: (1) Sundurliðaðra árlegra veiðitalna frá Vestmannaeyjum 1967-2007. Í þessum gögnum liggja upplýsingar um breytingar á stofnstærð marsílis, nýliðun og veiðisókn í lunda. (2) Lundamerkingar í Vestmannaeyjum 1953-2007 sem telja yfir 60.000 merkta fugla og 12.000 endurheimtur. Þessi gögn veita upplýsingar um árlega og aldursbundna dánartölu. Líklegt þykir að samlegðaráhrif þessara gagnasafna veiti: verulega innsýn í eðli stofnstærðarbreytinga lunda og sandsílis; þ.m.t. áhrifa veðurs og veiða á stofnstærð lunda.