Fréttir 2009

Sléttumáfur heimsækir Eyjar

Ungur sléttumáfur (Larus pipixcan) sást við Vestmannaeyjahöfn sunnudaginn 6. desember. Hann hélt sig á sama stað daginn eftir og komu m.a. þrír fuglaskoðarar í dagsferð með Herjólfi til að sjá fuglinn en sléttumáfar hafa aðeins sést þrisvar áður á Íslandi svo vitað sé.

 

Sléttumáfurinn (e: Franklin’s Gull) á nyrðri hafnargarðinum. Myndin er tekin frá Herjólfi.

Sléttumáfar eru farfuglar sem verpa í miðríkjum Kanada og nokkrum nálægum fylkjum Bandaríkjanna og fara þeir til Suður Ameríku yfir vetrartímann. Þeir eru aðeins minni en hettumáfar og eru ungfuglar með svartan gogg og nánast svartar lappir, bak er dökkgrátt og vængendar svartir með smá hvítu á fjaðraendum. Svört hetta er nokkuð áberandi sem og hvítur hálfhringur umhverfis augu.

 

Nokkuð hefur verið um ameríska flækingsfugla í Vestmannaeyjum í haust og má þar nefna krúnuskríkju (Dendroica coronata), rákaskríkju (Dendroica striata), dulþröst (Catharus guttatus), 2 heiðatittlinga (Anthus rubescens) og vaðlatítu (Caldris fuscicollis). Hægt er að skoða myndir af flestum  þessara fugla á heimasíðu Yanns Kolbeinssonar með því að smella á fuglanöfnin hér fyrir ofan.