Fréttir 2011

Ráðleggingar varðandi eggjatöku og lundaveiði í Vestmanneyjum 2011.

Staða lundastofnsins við Vestmannaeyjar 2011.

Skemmst er frá því að segja að viðkomubrestur hefur verið viðvarandi hjá lundanum frá 2005 eða í sex ár samfellt. Í fyrra var viðkoma engin í rannsóknaholunum og um 82% eggja voru afrækt sem er það mesta hingað til. Einungis var komið með 10 bæjarpysjur í Sæheima og hafa þær ekki verið færri frá 2003. Ekkert smásíli kom til Eyja síðsumars eins og 2007-2009, en þessi síli hafa bjargað líf þeirra pysja sem voru enn á lífi þau ár. Teljum við að þessar síðbúnu sílagöngur hafi rekið að austan, en í fyrra brá svo við að varp misfórst í Ingólfshöfða og reyndar víðar um land, en svo virðist sem viðkomubrestur hjá lunda hafi verið víðtækari um landið árið 2010 en áður. Háfaveiði var samtals 123 fuglar samkvæmt innsendum veiðitölum, en veiðimenn fóru almennt ekki til veiða. Samantekið vantar að stóran hluta fimm árganga og algerlega 2010 árganginn til viðbótar. Viðbúið er að varpstofninn minnki mjög hratt næstu sex ár a.m.k., nema stórfelldur innflutningur muni eiga sér stað.

 

Tillaga Náttúrustofu Suðurlands um lundaveiði

Náttúrustofa Suðurlands leggur til að lundaveiði í Vestmannaeyjum verði óheimil þangað til að viðkoma tekur við sér, t.d. um eða yfir 0,4 ungar/egg í a.m.k þrjú ár í röð. Eftir það væri möguleiki að leyfa takmarkaðar veiðar t.d. 5 daga, þ.e. hefja veiðar rólega með stuttum veiðitíma. Þessi tillaga er til að bregðast við þeirri miklu fækkun sem hefur átt sér stað í stofninum og með hliðsjón af að ástandið er líklegt til að vara lengur.

 

Tillaga Náttúrustofu Suðurlands um friðun langvíu fyrir eggjatekju

Samkvæmt talningum Arnþórs Garðarssonar, á bjargfuglum Vestmannaeyja af loftmyndum 1985 og aftur 2006, hefur langvíu í Eyjum fækkað um 40% eða úr 57.000 varppörum í 34.000 varppör. Langvía er sílaæta og því undir sama hatt sett og lundinn. Lagt er til að eggjatekja verði bönnuð í ár og að í framhaldinu verði lögð drög að mælingu varpárangurs og ákvörðun áframhaldandi eggjatöku ráðist af niðurstöðum þeirra mælinga.

 

Tillaga að reglum Vestmannaeyjabæjar um eggjatekju

Lagt er til að aðeins verði farin ein ferð til eggjatöku og eins snemma og kostur er. Bannað verði að ryðja stropuðum eggjum fram af syllum. Fjöldi eggja sé tilkynntur til Náttúrustofu Suðurlands sem haldi upplýsingunum til haga. Lagt er til að þessum reglum verði bætt í leiguskilmála á hlunnindum Vestmannaeyjabæjar.

 

Um gæludýrahald í Eyjum

Náttúrustofa Suðurlands óskar eftir umfjöllum umhverfis- og skipulagsráðs um dýrahald í Eyjum sem getur skaðað fuglabyggðir í Heimaey. Útigangskettir hafa skapað vandamál hér, hafa þeir t.d. lagst á skrofur í Ystakletti, en útigangskettir eru alþjóðlega vel þekkt vandamál fyrir sjófuglabyggðir. Sömu sögu er að segja um kanínur eins og skemmst er að minnast. Viljum við vekja athygli á því að það þarf að fyrirbyggja dýrahald á tegundum skaðlegum sjófuglum í miðri risasjófuglabyggð, en í Heimaey er enn stærsta lundavarp heims. Sérstklega er kallað eftir úrlausnum varðandi útigangsketti.