Fréttir 2006

Litmerktar sandlóur af Suðurlandi í Evrópu

Síðastliðin tvö sumur hafa sandlóur verið litmerktar á Suðurlandi og á Vestfjörðum. Á Suðurlandi hefur aðallega verið merkt við Stokkseyri en einnig við Strönd á Rangárvöllum og við Brúsastaði í Þingvallasveit. Merkingarnar á Suðurlandi eru í höndum Vigfúsar Eyjólfssonar en Böðvars Þórissonar á Vestfjörðum. Dr. Tómas Grétar Gunnarsson hefur séð um skipulagningu.

 

Fyrsti aflesturinn erlendis af  sandlóu litmerktri á Suðurlandi var 15. ágúst 2005 í Co Wexford á suður Írlandi. Það var karlfugl merktur 2005 við golfvöllinn Strönd á Rangárvöllum. Í október og nóvember sást í tvígang kvenfugl í Galicia á Spáni. Hún var merkt 2005 við Gamla Hraun  milli Stokkseyrar og Eyrabakka.

 

Í febrúar fór Böðvar ásamt Petrínu Sigurðardóttur og hópi breta til þess að lesa af litmerktum jaðrakönum í Portúgal. Við ósa árinnar Tagus skammt frá Lissabon sáu þau sandlóu sem var litmerkt 2004 við Knarrarósvita austan Stokkseyrar.  Um var að ræða kvenfugl sem sást tvisvar sumarið 2005 fyrst við bæinn Skipa austan Stokkseyrar og síðan í fjörunni við Gamla Hraun.