Þegar forstöðumaður Náttúrustofunnar var á ferðinni í fjörunni fyrir norðan Klifið í morgun (6. desember 2006) sá hann að miklar breytingar hafa orðið vegna nýlegs hruns úr Klifinu. Hrunið virðist að mestu hafa komið úr bergstálinu rétt ofan við skriðuna neðan við Klifið norðaustanvert þar sem laggangur gengur í gegnum móbergið. Bergstálið er mjög sprungið þarna og því er von á að meira hruni á næstu vikum og mánuðum og því stórhættulegt að vera þarna á ferðinni. Skriðan sjálf er einnig mjög laus í sér og óstöðug enda er brimið að grafa undan henni. Stærsta heila bergblokkin í fjörunni er varlega áætluð 780 m3 (13m*15m*4 m) eða um 2.000 tonn að þyngd ef miðað er við eðlisþyngdina 2,6 g/sm3. Hér fyrir neðan eru myndir sem teknar voru í morgun.
Á myndunum hér fyrir ofan sést brotsárið í móberginu. Einnig hrundi úr lagganginum þar fyrir ofan
Þessar tvær myndir sýna hluta grófa efnisins sem nú þekur eldri skriðu. Á neðri myndinn sést á litabreytingu í móberginu hvernig hluti eldri skriðunnar hefur skolast í burtu. Líklega gerðist það áður en brotnaði úr bergstálinu en ekki er ljóst hvort það átti þátt í hruninu.
Efri myndin sýnir hluta skriðunnar og stærstu heilu blokkina sem hrundi úr Klifinu en hún er varlega áætluð um 2.000 tonn að þyngd. Á neðri myndinni stendur ljósmyndarinn uppi á sömu bergblokk og horfir í átt að Stóra Erni.