Fréttir 2009

Heiðlóa verpur í Surtsey

 

 

Þriðjudaginn 19. maí fór fjögurra manna leiðangur í Surtsey til að setja upp sjálfvirka veðurstöð. Þetta voru þeir Borgþór Magnússon frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Sigvaldi Árnason frá Veðurstofu Íslands og Ingvar Atli Sigurðsson frá Náttúrustofu Suðurlands. Björgunarfélag Vestmannaeyja sá um flutning leiðangursmanna og farangurs út í Surtsey. Upphaflega stóð til að fara 18. maí en þá var brim það mikið að ekki var talið fært í land; allt gekk hins vegar upp sólarhring síðar. Tveimur dögum síðar var veðurstöðin komin á sinn stað og verða gögnin aðgengileg á heimasíðu Veðurstofunnar einhvern næstu daga.

Fuglalíf Surtseyjar var kannað lauslega og bar þar helst til tíðinda að heiðlóa fannst á hreiðri með 4 eggjum en þetta er í fyrsta skipti sem vaðfugl verpir í Surtsey. Sex tjaldar og tveir stelkar sáust á flugi en ekki er vitað til þess að þessar tegundir hafi orpið í Surtsey. Grágæs lá á hreiðri með einu eggi og hrafninn var með 5 nýlega klakta unga og var laupurinn á sama stað og í fyrra en þá komust þrír ungar á legg. Í máfavarpinu bar mest á svartbak og sílamáf en einnig voru nokkur pör af silfurmáf og a.m.k eitt hvítmáfspar. Talsvart sást af steindepli en ekki er vitað til þess að þeir hafi orpið. Loks má geta þess að tvær hunangsflugur sáust en þær hafa ekki sést áður í Surtsey. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í ferðinni.

 

 

Borgþór, Sigvaldi og Bjarni Diðrik við veðurstöðina.

 

 

Lausa efnið er óðum að skolast utan af móberginu. Hér sést í hluta Austurbunka.

 

 

Gilskorningur og aurkeila norðan í Austurbunka.

 

 

Hrafnsungarnir.