Fréttir 2010

Flækingsfuglar á Heimaey haustið 2010

Nokkuð var um erlenda flækingsfugla á Heimaey nú í haust. Mest áberandi var stór hópur sportittlinga sem kom undir lok ágústmánaðar og var hér langt fram í september. Einnig var hér fjöldi silkitoppa í október. Hér sáust líka þrjár norður amerískar tegundir sem aldrei áður hafa sést á Heimaey (grímuskríkja, rákatíta og grastíta) og nokkrar tegundir sem eru sárasjaldgæfar (dvergtittlingur, heiðatittlingur, hrísastelkur, trjástelkur og gulllóa).

 

Grímuskríkja (Geothlypis trichas) á Eldfellshrauni 4. október. Þetta er aðeins annar fuglinn sem sést á Íslandi. Sá fyrsti fannst árið 1997.

Myndir náðust af nokkrum þessara fugla og eru þær hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar um flækingsfugla á Íslandi má finna á heimasíðunum The Icelandic Birding Pages og Fuglar.is.

 

Sportittlingur (Calcarius lapponicus) á Ofanleitishamri 27. ágúst. Að minnsta kosti 120 sportittlingar sáust á þessum tíma á Heimaey sem er metfjöldi. Talið er að fuglar sem sjást hér á landi séu grænlenskir varpfuglar á leið til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum.

 

Fullorðin rákatíta (Calidris melanotus) t.h. ásamt sendlingi í Vilhjálmsvík 4. septmeber. Þetta er fyrsta rákatítan sem sést á Heimaey.

 

Rósafinka (Carpodacus erythrinus) í Viðlagafjöru 4. september. A.m.k. fjórar rósafinkur sáust á Heimaey í september.

 

Trjástelkur (Tringa ochropus) á Ofanleitishamri 5. september. Þetta er annar fuglinn sem finnst á Heimaey og sá sjötti fyrir landið.

 

Grastíta (Tringites subruficollis) t.v. ásamt sandlóu á golfvellinum 7. september. Þetta er fyrsta grastítan sem sést á Heimaey.

 

Ung bæjasvala (Delicon urbicum) í Klauf 11. september. Bæjasvölur eru mun algengari sem flækingar á Heimaey á vorin.

 

Ung rákatíta (Calidris melanotus) á Ofanleitishamri 12. september. Fugl númer tvö fyrir Heimaey.

 

Grágrípur (Muscicapa striata) á Ofanleitishamri 13. september.

 

Heiðatittlingur (Anthus rubescens) í Vilhjálmsvík 15. september. Þetta er fimmti fuglinn sem finnst á Heimaey en tveir sáust bæði 2008 og 2009.

 

Hrísastelkur (Tringa flavipes) á Ofanleitishamri 27. september. Þetta er annar hrísastelkurinn sem sést á Heimaey, sá fyrsti sást 1970.

 

Grímuskríkja (Geothlypis trichas) á Eldfellshrauni 3. október, sami fugl og á efstu myndinni. Þetta er aðeins annar fuglinn sem sést á Íslandi.

 

Dvergtittlingur (Emberiza pusilla) á Eldfellshrauni 3. október. Þetta er annar dvergtittlingurinn sem sést á Heimaey (sá fyrsti sást 1965) og sá áttundi fyrir landið.

 

Hauksöngvari (Silvia nisoria) á Eldfellshrauni 3. október. Hauksöngvarar eru nokkuð algengir flækingsfuglar á Íslandi á haustin og hafa sést a.m.k. tíu sínnum á Heimaey.

 

Gulllóa (Pluvialis dominica) á Breiðabakka 5. október. Tvær gulllóur héldu sig með heiðlóum á Heimaey í október en tvær höfðu sést hér áður, sú fyrsta árið 2005.

 

Grálóa (Pluvialis squatarola) í Brimurðaröldu 17. október. Hún hélt sig með heiðlóum.

 

Söngþröstur (Turdus philomelos) við Heiðaveg 21. október.

 

Silkitoppa (Bombycilla garrulus) við Ásaveg 26. október. Yfir 50 silkitoppur sáust í Vestmannaeyjabæ þennan dag.