Fréttir 2011

Fiðrildaveiðar 2010.

Náttúrustofa Suðurlands og Sæheimar voru með ljósgildru til fiðrildaveiða úti í Stórhöfða síðasta sumar. Gildran var tæmd vikulega á tímabilinu 7. maí til 9. nóvember. Alls náðust 183 fiðrildi og síðasta mánudag var farið með aflann á Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem Erling Ólafsson aðstoðaði við (sá um) greininguna.

 

Hluti fiðrildanna sem komu í gildruna í Stórhöfða.

Algengustu tegundirnar voru jarðygla (Diarsia mendica), grasvefari (Eana osseana), hrossygla (Apamea exulis), grasygla (Cerapteryx graminis) og brandygla (Euxoa ochrogaster). Aðrar tegundir sem veiddust voru gammaygla (Autographa gamma), hnappvefari (Lobesia littoralis), sandygla (Hypocoena stigmatica), hringygla (Mniotype adusta) og tvær sem ekki hafa íslenskt nafn, Bryotropha similis og Scrobipalpa samadensis. Næsta sumar verður gildran sett upp á sama stað og þá verður hún losuð á sama tíma og aðrar ljósgildrur á landinu svo hægt verði að nýta niðurstöðurnar héðan með þeim gögnum.