Undanfarna daga hefur mátt sjá nokkurn fjölda sportittlinga á Heimaey. Á fimmtudag voru 18 fuglar á Ofanleitishamri rétt sunnan golfvallar og í dag voru a.m.k. 26 fuglar í tveimur hópum á hamrinum. Áður höfðu tveir fuglar sést í Surtsey 19. ágúst. 31. ágúst voru fuglarnir a.m.k. 120 á Ofanleitishamri.
Sportittlingur á Nýja hrauninu.
Sportittlingur (Calcarius lapponicus) hefur orpið a.m.k. tvisvar á Íslandi (2007 og 2009) en er annars fargestur á leið frá vetrarstöðvum í Evrópu til norðlægra varpstöðva. Líklegast er að fuglar sem sjást hér verpi á Grænlandi. Algengst er að sportittlingar sjáist á Heimaey á haustin en þeir hafa líka sést þar á vorin. Það fer hins vegar ekki mikið fyrir þeim og líklega fara margir fuglar í gegn án þess að eftir þeim sé tekið. Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar 26. og 27. ágúst á Ofanleitishamri og á Nýja hrauninu þar sem sportittlingarnir voru að gæða sér á fræjum og jafnvel krækiberjum.