Rannsóknum Náttúrustofu Suðurlands á viðkomu lunda á landsvísu árið 2013 átti að ljúka í síðustu viku. Varp hófst mjög seint á nokkrum stöðum sunnanlands og því verður áfram fyglst með nokkrum svæðum.
Heimsótt voru 13 vörp umhverfis landið í tveimur ferðum, fyrst í seinni hluta júní og svo aftur í júlí. Skoðað var í um 600 merktar varpholur með holumyndavélum og innihald skráð. Að auki voru fæðuberar (sílisfugl) ljósmyndaðir í júlí til að sjá hvaða fæðu lundinn var að bera í pysjuna á hverju svæði fyrir sig.
Lundi að bera fæðu (líklega sandsíli) í pysjuna. Myndin er tekin í Grímsey, Steingrímsfirði
Líkt og undanfarin fjögur ár skiptist landið í tvennt eftir varpárangri og fæðuframboði í vörpunum. Á „Norðursvæði“ frá Vigur í Ísafjarðardjúpi til Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra hefur ábúð varphola verið 70-80% og viðkoma með hæsta móti eða 0,6-0,8 ungar á holu. Sandsíli var áberandi hjá fæðuberum í júlí og mikill fæðuburður eins og síðustu tvö ár, sérstaklega NA-lands. Almenn aukning er í ábúð og endurspeglar hún innflutning þar sem hún er mest. Á „Suðursvæði“ sem nær frá Papey til Elliðaeyjar á Breiðafirði hefur á sama tíma verið fæðuskortur, lág ábúð (<70%) og áberandi léleg viðkoma (0-0,36 ungar á holu). Í ár varð aukning í ábúð í öllum vörpum suðursvæðis, mest vestanlands og í Vestmannaeyjum. Líklega er stærstur hluti stofnaukningarinnar innflutningur frá öðrum svæðum og á það sérstaklega við í Eyjum (65% nú m.v. 50% árið 2012), en hafa ber í huga að um 40% íslenska lundastofnsins verpur í Vestmanneyjum. Loðnuseiði voru áberandi í fæðu um SA-vert landið; í Papey og Ingólfshöfða. Almennt er varp mjög seint á ferðinni á suðursvæðinu og því ekki enn ljóst hver endanlegur varpárangur verður, en á meðan fæðuskortur ríkir lítur illa út með varpárangur fugla sem enn liggja á eggjum. Lundar í Vestmannaeyjum hafa verið að yfirgefa egg undanfarnar vikur meðan lítið sem ekkert klak hefur átt sér stað. Því stefnir í að viðkoma geti farið allt niður í um 0,07 unga á varpholu samanborið við 0,37 í fyrra þegar komið var með um 1500 pysjur á Sæheima. Þær yrðu því ekki nema um 300 í ár og yfirgæfu holur um mánaðamót ágúst-september ef fer sem horfir. Áfram verður fylgst með síðbúnu varpi í Vestmannaeyjum og víðar og endanlegar tölur um varpárangur þar birtar síðar. Ljóst er að viðkomubrestur hefur þegar orðið í Breiðafirði þar sem mörg egg voru yfirgefin sem og í Dyrhólaey. Viðkoma sem sýnd er á meðfylgjandi mynd gerir ráð fyrir að þeir ungar sem nú eru í holum komist á legg.
Ábúðarhlutfall hjá lunda á tólf stöðum árið 2013
Áætluð viðkoma lunda á tólf stöðum árið 2013 (leiðrétt 14. ágúst 2013, viðkoma fyrir Vestmannaeyjar árið 2012 var ekki rétt á eldri mynd)
Yann Kolbeinsson, Náttúrustofu Norðausturlands, Erpur Snær Hanssen og sjálfboðaliðarnir Mia Young Cook og Hugh David Powell í Lundey, Skjálfanda
Úlfur Alexander Hansen og Ingvar Atli Sigurðsson í kaffipásu í skjóli fyrir rigningunni í Papey
Loðnuseiði sem lundi var að bera í pysju í Ingólfshöfða í júní
Lundi með fæðu (líklega smásíld)