Náttúrustofa Suðurlands hefur nú lokið yfirferð sinni um 12 lundavörp á Íslandi. Líkt og undanfarin ár er ástandið ekki gott fyrir sunnan (Vestmannaeyjar, Dyrhólaey og Ingólfshöfði) en ágætt annars staðar (ef Lundey) er undanskilin. Stóra fréttin er sú að bæði Faxaflói (Akurey) og Breiðafjörður (Elliðaey) koma nokkuð vel út í ár.
Næstu þrjá daga er leyft að veiða lunda í Vestmannaeyjum. Náttúrustofa Suðurlands ítrekar að veiðar í Vestmannayjum eru ekki æskilegar fyrr en viðkoman hefur verið góð a.m.k. fjögur ár í röð en nú hefur viðkoman verið lítil eða engin í meira en tíu ár samfellt.
Ef menn fara engu að síður til veiða eru þeir hvattir til hófsemi og að ljósmynda nef allra veiddra fugla eða koma hausunum til Náttúrustofu Suðurlands svo hægt verði að aldursgreina veiðina.
Lundi með flekkjamjóna í Drangey.
Varp | Viðkoma |
Dyrhólaey | 0,04 |
Ingólfshöfði | 0,18 |
Papey | 0,39 |
Hafnarhólmi | 0,57 |
Lundey | 0,22 |
Grímsey | 0,51 |
Drangey | 0,62 |
Vigur | 0,64 |
Grímsey, Steingrímsfirði | 0,53 |
Elliðaey, Breiðafirði | 0,48 |
Akurey | 0,45 |
Vestmannaeyjar | 0,15 |
Viðkoma varpanna er sýnd í töflunni hér fyrir ofan. Viðkoma er reiknaður fjöldi unga á lundaholu. Í hverju varpi erum við með a.m.k. 40 holur merktar og í fyrri hringnum kíkjum við í þær með holumyndavél og fáum þannig út ábúð (fjoldi lundahola með eggi eða unga á móti heildarfjölda hola). Í seinni hringnum förum við aftur í virkar holur og fáum þá varpárangurinn. Viðkoman er síðan margfeldi af ábúð og varpárangri.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá seinni leiðangri sumarsins en fréttir af báðum leiðöngrunum voru settar jafnóðum inn í Facebook síðu Náttúrustofu Suðurlands.
Lundi í Drangey.
Lundi í Drangey.
Lundar með æti í Ingólfshöfða.
Lundi með æti í Papey.
Frá Papey.
Frá Papey.