Náttúrustofa Suðurlands og Sæheimar voru með ljósgildru til fiðrildaveiða í Stórhöfða í sumar líkt og síðasta sumar. Gildran var sett upp 15. apríl og tæmd vikulega á tímabilinu 22. apríl til 7. október og skiptust starfsmenn stofnananna og starfsmaður Surtseyjarstofu á um að vitja aflans. Alls náðust 122 fiðrildi og 12. október var farið með þau á Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem Erling Ólafsson aðstoðaði við (sá um) greininguna. Gildran verður uppi eitthvað fram í nóvember og ef eitthvað meira veiðist verður því bætt inn.
Gulygla. Sjö gulyglur komu í ljósgildruna í Stórhöfða í september. Myndin er tekin af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Algengustu tegundirnar voru grasvefari (Eana osseana), hrossygla (Apamea exulis) og grasygla (Cerapteryx graminis). Aðrar tegundir sem veiddust, raðað eftir fjölda, voru gulygla (Noctua pronuba), jarðygla (Diarsia mendica), brandygla (Euxoa ochrogaster), ein tegund sem ekki hefur íslenskt nafn (Scrobipalpa samadensis), sandygla (Hypocoena stigmatica), tígulvefari (Epinotia solandriana), kálmölur (Plutella xylostella), dumbygla (Apamea crenata), dílamölur (Rhigognostis senilella) og túnfeti (Xanthorhoe decoloraria). Mun færri jarðyglur veiddust í ár en í fyrra en að öðru leyti er þetta svipað. Mun minna veiðist í gildruna í Stórhöfða en gildrur annars staðar á landinu enda varla kjöraðstæður fyrir fiðrildi í Stórhöfða. Gildran gefur samt sem áður vísbendingar um hvað þrífst við þessar aðstæður.