Fréttir 2012

Farfuglar – lundinn mættur til Eyja

Fyrstu lundar vorsins eru mættir til Eyja. Um klukkan tvö í dag sáust fjórir lundar norðan við Valshilluhamar í Höfðavík. Nú er bara að sjá hvort að þeim fjölgi ekki í dag og hver veit nema þeir setjist upp í kvöld en undanfarin ár hefur lundinn sest upp um 14. apríl.

 

Einn fjögurra lunda sem spókuðu sig í Höfðavík klukkan tvö í dag, 14. apríl.

Af öðrum farfuglum er það helst að segja að fyrsti þúfutittlingurinn sást í gær við Ofanleiti, skúmur var á flugi út af Stórhöfða, hrossagaukar sjást víða og heiðlóu hefur fjölgað mikið undanfarna daga. Einnig má sjá mikið af gæsum á flugi yfir Heimaey, mest virðist vera af helsingjum og heiðagæsum en einnig er eitthvað af grágæsum og stök margæs var í Höfðavík í morgun. Þar var líka urtandarpar og nokkrir styggir skógarþrestir skutust á milli steina.

 

Þúfutittlingur við Ofanleiti í gær.