Fuglafréttir

11. febrúar 2005 kl.11:05

Fuglalífið á Heimaey hefur verið nokkuð fjörlegt það sem af er ársins og minna virðist vera að reka af dauðum svartfugli og æðarfugli á fjörurnar. Mest ber á snjótittlingum sem fara um bæinn í stórum hópum og reyna að forðast að verða köttum eða smyrlum að bráð.

Í bænum má einnig sjá skógarþresti, gráþresti og stara auk þess sem tildrurnar eiga það til að sækja í þá garða þar sem smáfuglunum er gefið. Tildrurnar er annars mest niður við höfn og í fjörunum og má sjá einn og einn sendling með tildrunum. Að minnsta kosti þrír smyrlar hafa sést í bænum og fálki hefur haldið sig suður á eyju. Í fuglatalningu 9. janúar sáust 24 tegundir á einu talningarsvæðinu (höfnin og utan Eiðis, bærinn og Stórhöfði) en þann daginn sáust gráþrestirnir ekki og fýllinn ekki heldur (sjá töflu).