Fiðrildaveiðar 2013

12. nóvember 2013 kl.14:38

Náttúrustofa Suðurlands, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Sæheima og Surtseyjarstofu, var með ljósgildru til fiðrildaveiða í Stórhöfða í sumar líkt og þrjú síðustu sumur. Gildran var sett upp 16. apríl og tæmd vikulega á tímabilinu 23. apríl til 5. nóvember. Að þessu sinni veiddust aðeins 168 fiðrildi og var farið með þau á Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem Erling Ólafsson aðstoðaði við að greina þau til tegunda.
 
 
Hrossygla (Apamea exulis) var næst algengasta tegundin í sumar.
 

Eins og í fyrra var grasvefari algengasta tegundin, en einnig komu eftirtaldar tegundir í gildruna: hrossygla, brandygla, jarðygla, grasygla, Scrobipalpa samadensis, gráygla, gammaygla, gulygla, garðygla, dumbygla, Bryotropha similis, flikruvefari, dílamölur og svo Coleophora algidella sem ekki hafði áður veiðst í gildruna í Stórhöfða. Nú hafa alls veiðst 20 tegundir frá því gildran var sett upp árið 2010. Myndirnar eru teknar af pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands og áhugasömum er bent á að upplýsingar um flest þau fiðrildi sem veiddust í Stórhöfða er að finna þar, sjá hér. 
 
Gammaygla (Autographa gamma). Fimm gammayglur komu í gildruna í Stórhöfða í sumar.