Fiðrildaveiðar 2012

19. nóvember 2012 kl.08:31

Náttúrustofa Suðurlands og Sæheimar voru með ljósgildru til fiðrildaveiða í Stórhöfða í sumar líkt og tvö síðustu sumur. Gildran var sett upp 16. apríl og tæmd vikulega á tímabilinu 23. apríl til 5. nóvember og skiptust starfsmenn stofnananna og starfsmaður Surtseyjarstofu á um að vitja aflans. Alls náðust 309 fiðrildi og 15. nóvember var farið með þau á Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem Erling Ólafsson aðstoðaði við (sá um) greininguna.
 
 
Grasvefari var algengasta tegundin sem veiddist í Stórhöfða í sumar. Sjá má upplýsingar um tegundina á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands hér. Ljósmynd Erling Ólafsson.

Algengustu tegundirnar árið 2012 voru grasvefari, grasygla, brandygla, Scrobipalpa samadensis, hrossygla og jarðygla. Aðrar tegundir voru dumbygla, sandygla, flikruvefari, hringygla, gulygla, dílamölur, túnfeti, garðygla og gráygla. Garðygla og gráygla höfðu ekki komið í Stórhöfðagildruna áður en nú vantaði fjórar tegundir sem annaðhvort veiddust 2010 (gammaygla, Bryotropha similis og kálmölur) eða 2011 (tígulvefari). Upplýsingar um flestar tegundirnar er að finna á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sjá hér.
 
Grasygla er næstalgengsta tegundin sem veiddist í Stórhöfða 2012. Sjá upplýsingar um tegundina á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar hér. Ljósmynd Erling Ólafsson.