Farhættir skrofu

26. júní 2012 kl.10:37

Verkefni sumarsins eru nú í fullum gangi og síðustu daga hafa m.a. verið farnar nokkrar ferðir í Ystaklett til þess að ná í dægurrita sem settir voru á skrofur í fyrra. Þetta verkefni hefur verið í gangi frá árinu 2006.
 
Yann Kolbeinsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands með skrofu í Ystakletti.

Nú er búið að ná aftur tíu af ellefu dægurritum sem settir voru á í fyrra auk þess sem einn náðist sem settur var á árið 2010. Líkur eru á því að síðasti fuglinn frá því fyrra náist líka en í þau skipti sem farið hefur verið í Ystaklett í ár hefur makinn verið á hreiðrinu. Áætlað er að gera nokkrar tilraunir í viðbót til að ná þessum síðasta fugli. Gott þykir að ná aftur 60-70% af þeim dægurritum sem settir eru út en endurheimtur á fuglum í Ystakletti haf verið með eindæmum góðar. Nú er búið að setja nýja dægurrita á 15 fugla og verður reynt að ná þeim aftur á næsta ári.
 
Uppfært 27.06.12. Nú í morgun náðist síðasti dæguritinn; þar með höfum við endurheimt alla þá 18 dægurrita sem settir hafa verið á skrofur í Ystakletti síðustu tvö ár. Geri aðrir betur!
 
Ingvar Atli með skrofu og egg í Ystakletti. Að loknum mælingum og sýnatöku (fjaðrir og blóð) voru fuglinn og eggið sett aftur inn í holuna, þá var fuglinn líka kominn með nýjan dægurrita.