Lundavarp misferst algerlega í Vestmannaeyjum og víðar um land

11. ágúst 2010 kl.11:10

Útlit er fyrir að mjög fáar lundapysjur komist á legg í Vestmannaeyjum, Akurey, Ingólfshöfða og Papey í ár. Nú hafa egg ýmist verið afrækt eða pysjurnar drepist fljótlega eftir klak í öllum þeim holum sem Náttúrustofan hefur fylgst með í sumar.
 
 
Varpárangur mældur í Papey í lok júlí.

Varpárangurinn í Vestmannaeyjum hefur verið slæmur undanfarin ár en aldrei sem nú. Ástandið er skárra á þeim stöðum sem skoðaðir hafa verið fyrir norðan land. Lundaveiði var leyfð í fimm daga í Vestmannaeyjum í ár en lítið var veitt. Náttúrustofan minnir lundaveiðimenn á að skila veiðitölum til Náttúrustofu Suðurlands fyrir 1. september.